Andvari - 01.01.1970, Blaðsíða 149
ANDVARI
LJÓÐAÞÝÐIIS'GAR VESTUR-ÍSLENZKRA SKÁLDA
147
að séra Runólfur hafi fært sér að gjöf enska ljóðabók með kvæðinu, og varð það
til þess, að hann færðist þýðinguna í fang: „svo fór ég á stúfana og reyndi að
gjöra mitt bezta, þó slíkt verk sé mér ofurefli. En eg vona, að lesendur Lög-
bergs taki viljann fyrir verkið og afsaki gallana, sem á því kunna að vera.“
Vissulega var hér í mikið ráðizt, en þegar alls er gætt, betur af stað farið
en heima setið, og viðleitni þýðanda því þakkarverð.
Séra Jónas A. Sigurðsson (1865—1933) var meðal hinna mikilvirkari ljóða-
þýðenda í hópi íslenzkra skálda í Vesturheimi, og birtust þýðingar hans árum
saman í íslenzkum blöðum og tímaritum þeim megin hafsins. Allmikið úrval
þeirra er í Ljóðmælum hans, sem gefur jafnframt góða hugmynd um það, hve
víða hann leitaði til fanga í þeim efnum. Hann sneri, meðal annars, á íslenzku
ljóðrænum kvæðum og víðkunnum eftir Longfellow, Tennyson, Eugene Field,
Robert Louis Stevenson og Edwin Markham. Lokaerindið í þýðingu séra Jón-
asar af hinu víðkunna kvæði „Home, sweet home“ eftir John Howard Payne
er á þessa leið:
í útlegð, án heimilis, — allt hefi eg misst, —
ó, æskunnar heimkynni gef mér sem fyrst, —
með heiðlóar sönginn, er huggast eg við, —
en hjartanu dýrmætan bernskunnar frið.
Heim, heim, aftur heim;
þó hrörlegt sé býlið, hvert barn langar heim.
Séra Jónas var fasttengdur ættarslóðum sínum og móðurmold, eins og frum-
ort kvæði hans bera fagurt vitni, og er það þá ekki nein tilviljun, að „æskunnar
heimkynni — með heiðlóar sönginn" verður honum ríkt í huga, er hann þýðir
hjartaheitan lofsönginn til heimahaganna.
Hann orti efnismikið kvæði um Abraham Lincoln, er sýnir djúpstæða að-
dáun hans á honum. Þarf þá engum að koma það á óvart, að á afmælisdegi
Lincolns, 12. febrúar 1926, þýddi séra Jónas kvæði Edwins Markham „Lincoln
sigrihrósandi", en þar er hinum ástsæla Bandaríkjaforseta ágætlega lýst í átta
ljóðlínum, og hittir þýðingin vel í mark:
Lincoln dó eigi. — Hann li’fir
í linkind — og blessar oss yfir. —
Hann reis, og hóf andans eldi
sitt ættland í hærra veldi.