Rauðir pennar - 01.01.1938, Blaðsíða 57
Æ, hví sérðu ei, mitt barn, það hið sígilda pund,
er ég sál þinni í vögguna gaf:
þennan öfluga foss, þessa ilmandi grund,
þetta auðuga, ljósbláa haf?
Eru ei gæði mín nóg, ef þér giftan er léð
til að greina þau, skipta þeim rétt?
Víst er saklaust mitt blóð, og þó sit ég hér með
þessa synd: hina kúguðu stétt.
Hvað er sólskinið mitt, hvað er söngfuglinn minn,
hvað er sumarsins fegursta skart,
hvað er vatnanna glit, hvað er víðigræn kinn,
hvað er vornótt með glóhárið bjart,
hvað er ómgöfug lind, hvað er upphafið fjall,
hvað^ er angan mín, tíbrá og þeyr,
ef í gegnum það allt heyrist örmagna kall
þess, sem út af í skugganum deyr?
Hvílíkt heimskunnar vald, þegar vinnufús þjóð
kringum verkefnin iðjulaus snýst,
meðan skorturinn vex eins og friðvana flóð,
og hans feigð inn í sálirnar brýzt!
Hvílíkt heimskunnar vald ræður vilja þess manns,
sem knýr veikari bróður á hjarn,
og sem gína vill einn yfir auði síns lands,
— hann er ekki minn sonur, mitt barn!
Sá, sem koma skal næst, verður þú, einmitt þ ú,
— það ert þú, sem ég fel nú minn hag,
því hin langþráða stund hefir nú, einmitt n ú,
óðum nálgast — og kemur í dag.
Stundin kemur í dag og til drengskapar knýr,
þar til djörfungin sigrar þitt hik.
Þú ert maður of stór, þú ert maður of dýr,
til að minnka við afslátt og svik!