Rauðir pennar - 01.01.1938, Blaðsíða 221
Ó, manstu okkar fyrsta kvöld: hinn vonum vígða fans,
— þar varst þú gyðjan, ég var bara smalinn.
Samt komst þú til mín, brostir og bauðst mér upp í dans,
— á björtum tónum liðum við um salinn.
Og þegar hönd þín titraði kom ofboð yfir mig
og augnum ég lokaði hægt — og kyssti þig,
og hef þó alltaf huglaus verið talinn.
Æ, svangur var ég, þyrstur var ég, þetta fagra kvöld,
en þorsti minn og sultur hurfu’ í skyndi.
Mér fannst þú vera boðskapur um óska minna öld,
og ísland hló með ljós á hverjum tindi.
Og mér fannst sem ég hefði eignazt allt — í borg og sveit.
— Hvað átti ég að gera í kolavinnuleit,
fyrst heimurinn var eintómt líf og yndi?
Og upp frá þessu hittumst við svo alltaf hér og þar,
því enginn mátti um leyndarmálið vita.
Og stundum, þegar sulturinn mig sárast innan skar,
í sakleysi þú réttir að mér bita.
Þá varstu sem sé eldabuska fínum hjónum hjá,
og hirtir stundum leifar, sem enginn vildi sjá,
(— því það, sem hjónin þjáði mest var fita).
En það komst upp, að leifarnar þú burt á kvöldin barst,
— þá bannsöng frúin, húsbóndinn varð óður,
og rekin eins og þjófur úr vistinni þú varst,
og verður nú að lifa á snauðri móður.
Og ég get ekki lengur lagt þá hneysu á hjarta mitt
að hanga svona og narta í litla brauðið þitt,
— en mikið er nú matur stundum góður!
Ó, hugsaðu þér, Kata, hvað það hefði verið sælt,
að hverfa til þín beint frá vinnu sinni,
og hvað ég hefði blíðlega við glólokkinn þinn gælt,
er gómsæt máltíð beið mín hjá þér inni.
221