Tímarit Máls og menningar - 01.12.1995, Side 18
Þeir eltu hann á átta hófahreinum,
þá má eltu hann ekki renna saman og verða eltann, eins og það helzt vill verða,
því ef línan tapar atkvæði, verður hún ónýt. Þessu hljóðgapi verður að halda
opnu með offorsi í flutningi.
Að lokum skal minnzt á eina ferskeytlu, sem reyndar ætti heima í úrvals-
flokki íslenzkra ljóða, en það er stakan alkunna:
Kvölda tekur, sezt er sól,
sveimar þoka um dalinn;
komið er heim á kvíaból
kýrnar, féð og smalinn.
Þessi vísa er svo fullkomið listaverk, að engum ætti að blandast hugur um að
hún er gerð af mjög listfengu skáldi. Þó er hún eitt þeirra mörgu íslenzku
snilldarverka, sem enginn veit höfund að, nema þann snilling, þjóðina sjálfa.
Líklega er vandfundin betri sambúð forms og efnis en í þessu litla ljóði, þessu
látlausa og þokkafulla málverki, sem gert er af slíkum næmleik, að við
finnum ilm úr döggvotu grasi, sem hvergi er nefnt.
Stundum er sagt, að sá sé verstur galli á ljóði, að það sé gallalaust. Hér er
vitaskuld átt við þess háttar frávik frá grundvallar-reglum, sem hjá klaufum
verða að braglýtum, en snillingar geta beitt sem listbrögðum til skrauts eða
óvæntra áhrifa. Ferskeytla telst rétt kveðin á tvisvar sjö trókum, þar sem sá
fjórði er þó stýfður. Frá þessu er samt æði oft vikið, oftast þannig að í upphaf
línu er settur amfíbrakki eða daktíli í stað tróka, auðvitað með misjöfnum
árangri, eftir því hver á heldur. I vísunni Kvölda fe/curbyrjar 3. lína á daktíla:
„komið er“. Og tökum nú eftir hvað þessi bragliður er þarna til mikillar prýði;
það er líkt og úr vandlega greiddu konuhári liðist ofurlítill lokkur niður yfír
ennið í öðrum vanga og gefi fríðu andliti sérstakan persónuleik. Og það er
varla tilviljun að þessi bragliður er einmitt settur í þá línuna sem kallar lifandi
verur inn á svið þessarar stílhreinu landslagsmyndar.
í þessari vísu er annað atriði sem vert er að minnast á. í 2. línu segir
„sveimar þoka um dalinn". Hér er rennt saman sérhljóðum á þann veg, að
öðrum þeirra er ofaukið í bragnum: „þoku um“; og þegar svo hagar til,
verður ýmsum að fella niður fyrra sérhljóðann, hvernig sem á stendur, enda
oft réttmætt; jafnvel getur bragurinn þurft þess með, eins og Ijóðlína Gríms:
Ekki’ er ein báran stök
Einatt er það þó matsatriði hvort betur hentar blæ ljóðlínunnar. Trúlega
þykir flestum betur fara að segja: „að góður vinnudagur fær’ í hönd“, því i-ið
16
TMM 1995:4