Tímarit Máls og menningar - 01.12.1995, Blaðsíða 61
um slóðir. Jú, hét hann ekki Getsamene, olíupressunargarður? Það
skipti ekki máli.
Þeir slöngruðu tólf saman — hver var það nú aftur sem vantaði? —
innan um ilmandi ólívutrén, syngjandi, hlæjandi, spýtandi, blótandi.
Jóhannes sagði klúran brandara um tvær systur í Betaníu og dauðan
bróður þeirra, og þeir hlógu, allir nema Jakob bróðir hans, sem hafði
margsinnis heyrt skrýtluna og geispaði bara, með brauðmylsnu enn í
skegginu. Hann stakk upp á að þeir settust niður á einhverjum balan-
um þarna; gras var hreinn munaður í þessu grábölvaða örfoka landi.
Þeir lögðust niður hver af öðrum; sumir nörtuðu í strá, aðrir geisp-
uðu. Vínið var að þrjóta úr krúsinni góðu og Jóhannes, ætíð skapgóð-
ur, stakk upp á, að hann þynnti það með vatni úr lindinni örlitlu ofar
í hlíðinni.
„Ef það væri nú bara hægt að breyta vatni í vín“, rumdi í Andrési,
„mundi ég leggja það á mig að klífa þarna upp eftir og baða mig.“
„Ég vil komast aftur á bátinn minn“, tautaði Pétur með heimþrá,
augun lukt og sterkir hærðir handleggirnir krosslagðir, „ég vil komast
heim, ég hef ekkert að gera hérna í borginni, ég á ekki heima hér.“
„Þið eruð aumkunarverðir“, sagði Jóhannes iðandi af íjöri, sem
stakk í stúf við sinnuleysi hinna, og bætti við: „Ég sæki vatn. Komdu
með mér.“ Hann hnippti í Jakob bróður sinn.
„Pétur hefur meiri þörf á göngunni en ég“, maldaði Jakob önugur
í móinn, en stóð þó letilega upp.
Pétur rifaði augun. „Varst þú eitthvað að finna að vaxtarlagi mínu?“
rumdi hann illúðlegri bassaröddu. „Ég get hlaupið þig af mér hvenær
sem er.“
„Sannaðu það, hlunkur.“ Jakob spyrnti ilskónum vægt til hans, en
Pétur þreif snöggt um ökkla hans og felldi hann næstum. Síðan spratt
hann furðu fljótur á fætur og skundaði nokkurn spöl.
„Hlunkur?“ kallaði hann gáskafullur innan úr rjóðri, „hlunkur?
Drattastu sjálfur úr sporunum, letiblóð.“
Jakob og Jóhannes röltu á eftir Pétri og hann horfði á eftir þeim
þremur. Skyndilega fann hann hvöt hjá sér til að teygja úr ganglimun-
um. Hann reis á fætur. „Bíðið“, kallaði hann á eftir þeim, en þeir voru
komnir úr kallfæri. „Hvaða bannsettur hávaði er þetta?“ bölvaði
Filippus í svefnrofunum; flestir hinna voru þegar sofnaðir.
TMM 1995:4
59