Tímarit Máls og menningar - 01.12.1995, Blaðsíða 112
ingi. Hún er frelsandi afl í samfélagi þar sem „allt getur gerst“. Hinni
efnislegu, hedónísku uppfyllingu óskanna er aldrei teflt gegn neinu siðferði-
legu gildismati heldur er hún þvert á móti gerð hluti af stærri og umfangs-
meiri „opnun“ samfélagsins. Djöflaeyjan verður að frásögn af frelsi.
Þessi frelsis- og uppgripatími er einnig umgjörð nýjustu skáldsögu Einars,
Kvikasilfurs. Þetta er fyrst og ffemst saga af „athöfnum“. Athöfnum sem eru
órjúfanlegur hluti af þjóðfélagi möguleikanna og uppgripanna þar sem
ákvarðanir eru ekki teknar með hliðsjón af áætlunum heldur vegna óvæntra
sviptivinda og duttlunga. Þær eru táknmynd þess tíma þegar bláfátækir
alþýðumenn, líkt og Bárður Killian, ein höfuðpersóna bókarinnar, geta
komist í feitt ef þeir eru nógu útsjónarsamir. En þessar athafnir eru þegar
upp er staðið allt annað en frelsandi. Þær leiða í besta falli ekki til neins en
oftar leiða þær þó til ógæfu, brjálæðis og enn meiri fátæktar. í stað þess að
vera tákn um frelsi eru þær sífellt spyrtar saman við æði, geðveiki og vímu.
Ýkjurnar í frásögninni vísa ekki á hina grótesku gerjun lífsins í fátækrahverf-
um Reykjavíkur, líkt og í Djöflaeyjunni, þær vísa fyrst og fremst á æðið: „nú
fór Bárður að taka til hendinni, með meiri starfsorku en nokkru sinni fyrr,
hann vann sextán til átján tíma á sólarhring alla daga vikunnar, og dreymdi
um peningamál þann stutta tíma sem hann svaf á nóttunni" (bls. 36).
I fyrri hluta skáldsagnatvennunnar um Killiansfjölslcylduna Heimskra
manna ráð (1992) gerði Einar tilraun til að skýra athafnaæðið út frá söguleg-
um og félagslegum þáttum, líkt og Guðmundur Andri Thorsson gerði í
skáldsögunni íslenski draumurinn (1991), þar sem „æðið“ var rakið til
„tilbúins“ draumveruleika stjórnmála og efnahags. Þessar skýringartilraunir
eru ekki jafn fyrirferðarmikill þáttur í Kvikasilfri en engu að síður er ljóst að
líkt og í Heimskra manna ráðum er Einar hér að gagnrýna þetta æði, þessa
sviptivinda uppgripanna. Hann teflir fram mótvægi við þessa loftkenndu
vitleysu sem er hinn jarðbundni sögumaður Halldór Killian og frásögn hans.
Að vísu lifir þessi sögumaður á sagnatilbúningi athafnanna og æðisins en
hann er engu að síður fulltrúi nýrrar skynsemi sem reynir að festa rætur í
þeim stöðugleika sem rís af kollsteypu athafnamannanna. Á grundvelli
þessarar nýju skynsemi er hægt að vega og meta fortíðina og gera upp
reikninga við tímabil uppgripanna. Tímar uppgripanna eru liðnir og það
eina sem þeir áorkuðu var vitleysa, glundroði og geggjun. Stöðugleikinn sem
leysir þá af hólmi er á hinn bóginn tími upplýsingar og íhugunar þar sem
viðhorf og verk eftirstríðsárakynslóðarinnar eru vegin og metin og blindgöt-
ur hennar gagnrýndar. Hann er hið ódrukkna ástand athafnafíklanna.
En þó svo að stöðugleikinn sé útgangspunktur gagnrýninnar, þá er ekki
verið að segja söguna af honum í Kvikasilfri heldur af uppgripum og athöfn-
um sem mistakast. Þegar þessari hrakfallasögu lýkur er hið frásagnarverða
110
TMM 1995:4