Tímarit Máls og menningar - 01.12.1995, Blaðsíða 52
þessu hélt hann áfram þegar hann hóf ritferil sinn með sögum sem einatt
báru sterkan keim af ljóði, goðsögn, ævintýri, og áttu einnig að leysa þann
sem við þeim tók undan „spillandi eitri lífsins“,9 undan þrúgandi leiðindum
lágkúrulegs hvunndagsleika. Gorkíj segir frá því í æfisögu sinni, að hann hafi
vonast til þess að saga hans „ízergil gamla“ (1894) félli konum vel í geð, „að
hún myndi reynast þess megnug að vekja hjá þeim þrá eftir frelsi og feg-
urð.“10 Þennan stein klappaði Gorkíj lengi, löngu síðar orðaði hann skálda-
draum sinn á þann veg að listin, bókmenntirnar œttu að „ rísa upp yfir
veruleikann og lyfta manninum upp yfir hann“.n Hann játar um leið að hér
sé hann að boða „nauðsyn rómantíkur" í bókmenntum, þeirrar rómantíkur
sem hann vill kalla „virka rómantík“.
Gömul og ný viðleitni Gorkíjs til að hrífa lesandann út úr hvunndagsleika
sínum er nærtæk skýring á þeirri hetjudýrkun sem setur svip sinn á mörg
verk hans. Gorkíj var í senn róttæklingur sem vildi rétta hlut alþýðu (amk.
ef hún hefði manndóm í sér til að gera uppreisn!) og harðsnúinn einstak-
lingshyggjumaður, sem hefúr ótvíræða tilhneigingu til að fyrirlíta „venju-
lega“ og þreklitla menn. Samúð hans er hreint ekki með þeim „veiku“ sem
hrekjast undan veðrum og vindum lífsins, heldur með þeim sterku sem
leggja allt í sölurnar og falla — ef ekki með sæmd þá að minnsta kosti með
bravúr!
Sú verður einatt bókmenntaleg niðurstaða af þessu öllu, að lýst er með
mikilli velþóknun hetjum sem lifa sterku lífi, leggja þann ofstopa í tilveru
sína sem gerir hana fagra og frjálsa — og þá um leið óbundna af hefðbundn-
um siðgæðiskröfum. I „Makar Tsjúdra“ segir Gorkíj frá sígaunum, Lojko
Zobar sem var djarfastur hestaþjófa og Röddu sem var meyja fegurst og
háskalegust: þau elska hvort annað með þeirri heift og því geypilega stolti
sem verður báðum að bana. ízergil gamla, sem hefur orðið í samnefndri
sögu, er moldavönsk kerling sem hefur víða flækst og elskað marga menn,
brennt suma upp til agna en framið morð til að bjarga öðrum, en sér aldrei
eftir neinu og lýtur engum.
VI
Allt það sem nú var rakið gerir einmitt Gorkíj vel líklegan til þess að sækja í
þann annarlega, skáldlega og hrikalega heim „Norðursins“ sem rússnesk
skáld og fræðimenn höfðu smíðað sér, sumpart beint upp úr forníslenskum
textum en þó meir upp úr túlkun á þeim sem finna mátti í aðskiljanlegum
frönskum, þýskum og sænskum ritum. Bókum um þessi efni sem berast til
hans tekur hann með fyrirvaralausri hrifningu, eins og sjá má til dæmis af
50
TMM 1995:4