Tímarit Máls og menningar - 01.12.1995, Qupperneq 58
flæddi úr brjóstinu útí hendur og fætur og henni fannst sem léttur,
svalur vindgustur léki um höfuð hennar og bærði hárið. Hljóðlátur
hlátur skók axlir hennar, borðið titraði, einnig glerið í lampanum og
tár streymdu niður á bréfið. Henni var gersamlega ómögulegt að
stöðva þennan hlátur og til að sannfæra sjálfa sig um að hún væri ekki
að hlæja að ástæðulausu, flýtti hún sér að minnast einhvers spaugilegs
atviks.
— En fyndinn kjölturakki! sagði hún, og fann að hláturinn var að
bera hana ofurliði. — En fyndinn kjölturakki!
Hún minntist þess hvernig Grúzdjov hafði leikið við hundinn
Maxím eftir tedrykkjuna í gær og síðan sagt frá öðrum sniðugum
hundi, sem hafði verið að eltast við hrafn í húsagarði nokkrum og
hrafninn hefði litið við og sagt:
— Þú ert nú meiri þorparinn!
Hundurinn, sem var ókunnugt um að hrafninn væri svona lærður,
fór gersamlega hjá sér, hörfaði steinhissa og tók að gelta.
— Nei, ég ætla heldur að elska Grúzdjov, ákvað Nadja og reif bréfið
í tvennt.
Hún fór að hugsa um stúdentinn, um ást hans, um sínar eigin
tilfmningar í hans garð, en svo rann allt saman í eitt og henni datt allt
mögulegt í hug: móðir sín, gatan, blýanturinn og flygillinn... Hugsanir
hennar voru gleðiþrungnar og henni fannst allt vera svo gott, svo
stórkostlegt, en henni skildist jafnframt að þetta væri ekki allt, að
innan skamms yrði allt enn betra. Bráðum færi að vora, svo kæmi
sumarið og hún færi með mömmu sinni til Gorbíkí, Gornyj kæmi í
heimsókn, þau myndu ganga saman í garðinum og hann myndi snúast
í kringum hana. Grúzdjov kæmi einnig og léki við hana krokkett og
keiluspil og segði henni frá ýmsu spaugilegu eða skemmtilegu. Hana
sárlengdi eff ir garðinum, myrkrinu, heiðum himni og stjörnum. Aftur
hristi hlátur axlir hennar og henni fannst sem herbergið ilmaði af
malurt og trjágrein slægist í gluggann.
Hún vissi hreint ekki hvað hún átti að gera við þessa miklu gleði
sem hafði heltekið hana, en settist á rúmið og horfði á helgimyndina
sem hékk á rúmgaflinum og hvíslaði:
— Guð minn! Guð minn! Guð minn!
Áslaug Agnarsdóttir þýddi
56
TMM 1995:4