Andvari - 01.01.1970, Qupperneq 22
20
ÞÓRARINN ÞÓRARINSSON
ANDVARI
að þau ættu jöfnum höndum að vernda það, sem væri nýtilegt í menn-
ingu og atvinnuháttum þjóðarinnar, og fullkomna það með því, sem vel
hefði reynzt hjá öðrum þjóðum. Það, sem Jónas leggur mesta áherzlu á
að verja, er sveitin og menningaráhrif hennar. Lífsstefna hans á jafnar
rætur í uppvexti hans í sveitinni og námsferðum til öndvegisþjóða Evrópu.
Hún er hvort tveggja í senn sókn og vörn.
Þótt ungmennafélögunum féllu skoðanir Jónas vel í geð, hefðu áhrif
hans sem ritstjóra Skinfaxa ekki orðið slík sem raun varð á, ef hann hefði
ekki haft þá miklu gáfu að geta klætt þær þeim búningi, er gerði þær
augljósar öllum almenningi og knúði rnenn til að taka afstöðu með hon-
um eða móti. I greinum Jónasar urðu hin flóknustu viðfangsefni einföld
og skemmtileg aflestrar, þótt þau yrðu þurr og þreytandi í skrifum ann-
arra. Það dró ekki úr athyglinni, að Jónas var vægðarlaus og markviss í
ádeilum sínum og túlkaði sjónarmið sín af slíkum sannfæringarhita, að
fylgismenn hans hrifust með. Það leið ekki heldur á löngu þangað til
Jónas hlaut þá viðurkenningu ungmennafélaganna, að þau hefðu hlotið
þann leiðsögumann, sem þau hefðu þarfnazt. Greinar hans hleyptu nýju
fjöri og eldmóði í ungmennafélagsskapinn, en meginþýðing þeirra var þó
fólgin í því að beina hugsun margra félagsmanna ungmennafélaganna að
ákveðinni lausn þeirra þjóðfélagslegu vandamála, sem legið höfðu þeim
þyngst á hjarta. Aðaláhrifin af Skinfaxagreinum Jónasar komu fyrst í ljós,
þegar hann og ungmennafélagarnir voru komnir inn á svið sjálfrar lands-
málabaráttunnar. Þau áhrif reyndust slík, að óhætt er að segja, að Skin-
faxi hafi á árunum 1911—16 verið eitt allra áhrifamesta blað þjóðarinnar,
þótt væri einna minnst þeirra.
Þótt ritstjórn Jónasar á Skinfaxa hefði þannig örlagarík áhrif á þróun
ungmennafélagsskaparins, hafði hún örlagaríkari afleiðingar fyrir hann
sjálfan. Hún beindi honum inn á vettvang þjóðmálanna og breytti persónu-
legum markmiðum hans. Fram að þessu hafði hugur hans beinzt mest
að uppeldismálum og skólamálum, og hann átti orðið örugga framtíð sem
vinsæll og áhrifamikill skólamaður. Ovíst er, hvort hann hefði nokkurn
tíma látið þjóðmálin sjálf til sín taka, ef ritstjórn Skinfaxa hefði ekki leitt
hann inn á þær brautir. Ritstjórn Skinfaxa veitti honum óvænt tækifæri
til að opinbera forustuhæfileika sína á þjóðmálasviðinu. I ritinu kom hann
skoðunum sínum á framfæri við æskufólk, sem var líkt og hann óánægt