Andvari - 01.01.1970, Page 163
ANDVARI
LJÓÐAÞÝÐINGAR VESTUR-ÍSLENZKRA SKÁLDA
161
iylgir því þessi skýring frá hendi þýðandans: „Þessar vísur sá ég í gömlu skóla-
blaði, þær eru eftir 14 ára gamfa stúlku. — Mér fannst blærinn yfir þeim vera
svo íslenzkur, að eg gat ekki stillt mig um að þýða þær“:
Hin gu'llhærða sólgyðja sígur
að svefnbeði, kyrrlátt og hljótt,
í skjóli við 'hlíðar og hóla.
Nú húmar af vormildri nótt.
A engjunum álfarnir dansa
við aftans-ljóss hverfandi skin.
En kvöldroðinn klæðum nú skiptir
og kyssir sinn blundandi vin.
Jakobína Johnson (f. 1883) hefir, eins og löngu er kunnugt, snúið á ensku
fjölda íslenzkra úrvalsljóða og hlotið verðugt lof fyrir þær ágætu þýðingar
sínar. Hins vegar hefir hún ekki, mér vitanlega, fengizt við ljóðaþýðingar á
íslenzku, svo að talizt geti. Enga slíka þýðingu er að finna í ljóðasafni hennar
Kertaljósum, og ég hefi einungis fundið eina þýðingu eftir hana í þeim vestur-
íslenzku blöðum og tímaritum, sem ég hefi farið yfir við undirbúning þessa
yfirlits. Það er þýðing úr ensku af samnefndu erfiljóði um ameríska jafnaðar-
manninn og verkalýðsleiðtogann Eugene Debs (1855—1926) eftir skáldkonuna
Martha S. Lippincott og er gerð að beiðni vestur-íslenzks aðdáanda hins djarf-
mælta mannréttinda- og friðarvinar. Þýðingin er birt í tímariti Þorsteins Þ.
Þorsteinssonar Sögu (sept.-febrúar 1928—29), og fer hann um hana þessum
orðum: „Kvæði þetta þýddi skáldkonan við Kyrrahafið fyrir C. H. Gíslason í
Seattle, umboðsmann Sögu þar. Unni hann Eugene Debs sökum skoðana hans
og mannkosta og þótti kvæðishöfundur mæla eftir hann rétt og vel. Þakkar
Saga frú Jakobínu og umboðsmanni sínum fyrir sendinguna."
Þýðingin ber merki þess næmleika tilfinninganna og listrænnar meðferðar
máls og ljóðforms, er sérkenna frumort kvæði frú Jakobínu, og fara hér á eftir
tvö erindi þýðingarinnar þeim ummælum til staðfestingar:
Sem leiðarstjarna líf hans allt
mun lýsa, — þar sem veg hann fann
til hæða’, — og kenna kristni þá:
Að krefja’ um ávöxt sérhvern mann.
Og eins, — að vitund bræðra bands,
er bindi æðri’ og lægri stétt,
sé undirstaðan, efalaust,
að alheims farsæld — sönn og rétt.
11