Rauðir pennar - 01.01.1938, Page 222
Og svo hefðum við labbað út í sumarloftið blátt
á sunnudögum snemma — og bæði hlegið dátt,
sem eigendur að allri veröldinni.
En hyernig fór? Við sitjum hér með sorg í hjartastað,
og sjáum ekki neina leið, ó, Kata!
Æ, mikill glópur var ég, því aldrei hélt ég að
svo erfitt væri um þennan heim að rata!
Við héldum að það væri kannske hægt að lifa á ást,
— en hvað er ást, ef beinharðir peningar ei fást
til húsnæðis, til fæðis og til fata?
Og pabbi og mamma bíða heima í dalnum djúpa enn,
og dapurlega fjögur börn þar gráta.
— Nú hverf ég þangað, ósáttur við alla þessa menn,
sem ekki vildu mig á sína báta.
Ég veit, að þeirra útskúfunararmur brýtur mig,
og ef til vill mun járnhnefinn sami mylja þig.
En okkar sök — hún er mér hulin gáta.
Ég vil ekki um það hugsa, hversu voðalegt það er,
að verða nú að kveðja þig og flýja.
Ég get þó ekki annað ... Hvaða gagn er að mér hér?
Ó, gráttu ekki í vasaklútinn nýja!
Ég keypti’ hann fyrir aura, sem ég úti’ á götu fann,
og ástin mín til dauðans er vafin inn í hann,
þó hann sé bara — lítil léreftsrýja.
Að vera svona ungur og eiga hjarta þitt,
og álaganna fargi samt ei bifa!
Að vera svona fullur af óskum, yndið mitt,
og upp á tindinn mega samt ei klifa!
Hver getur sætt sig við þann dóm að þegja og leika þræl?
En þetta heimta bræðurnir stóru ... Vertu sæl!
Þeir banna’ okkur — þeir banna’ okkur að lifa!
222