Uppeldi og menntun - 16.02.2007, Blaðsíða 144
144
ÞRÓUN TEXTAGERÐAR FRÁ M IÐBERNSKU T I L FU L LORÐ INSÁRA
opnast honum að auki víðáttur möguleika, tilgátna og hugmynda og hann áttar sig
á afstæði sjónarmiða og upplýsinga (sjá samantektir um þroskabreytingar unglings-
áranna t.d. í Berman, Ragnarsdóttir og Strömqvist, 2002; Kuhn og Franklin, 2006 og
Moshman, 1998). Þroskabreytingar unglingsáranna margfalda úrvinnslu- og skipu-
lagningargetu hugans og gera unglingum kleift að skilja, bera saman og tengja sífellt
fleiri og afstæðari fyrirbæri, hugmyndir og sjónarhorn. Um leið skapa þær forsendur
og tilefni til að nota tungumálið í nýjum og flóknari hlutverkum og við fjölbreytilegri
aðstæður en áður.
Auk vit- og félagsþroska, lífsreynslu og almennrar þekkingar má ætla að lestur og
önnur reynsla af ritmáli stuðli að framförum í samfelldri orðræðu og textagerð. Í efri
bekkjum grunnskóla eru nemendur orðnir nægilega vel læsir og skrifandi til þess að
tæknilega séu þeim allir vegir færir til að miðla og læra á eigin spýtur í gegnum lestur
og ritun. Kröfur um læsi í víðum skilningi sem og um flókna málnotkun og málskiln-
ing vaxa jafnframt með ári hverju og í skólanum fá börn og unglingar leiðsögn í ritun
og textagerð. Í nútímasamfélagi er færni í málnotkun af þessu tagi því nátengd námi
og skólagöngu. Segja má að færni í notkun samfellds máls í ræðu og riti (af því tagi
sem reynir á í þessari rannsókn) sé forsenda velgengni í skóla, en jafnframt að þjálfun
í henni sé veigamikill liður í langskólamenntun.
Rannsóknartilgátur
Á grundvelli þess sem rakið hefur verið hér að framan setti ég fram eftirfarandi rann-
sóknarspurningar og tilgátur um svör:
1. Er munur á textategundunum? Gert er ráð fyrir að margvíslegur munur sé á TEXTA-
TEGUNDUNUM tveimur (frásögnum og álitsgerðum) sem birtast muni á ýmsan hátt.
Fylgibreyturnar sem fjallað verður um í þessari grein eru: Lengd textanna (í setn-
ingum), lengd setninga (í orðum) og lengd málsgreina eða hlutfall aukasetninga af
heildarfjölda setninga í hverjum texta. Búist er við að frásagnir séu að jafnaði lengri
en álitsgerðir í öllum aldursflokkum, en þær síðarnefndu hins vegar flóknari og
þéttari, sem birtist m.a. í lengri setningum og hærra hlutfalli aukasetninga í álits-
gerðum en í frásögnum.
2. Breytist málnotkun með aldri? Búist er við miklum framförum í textagerð frá 10–11
ára aldri fram á fullorðinsár. Þróun málnotkunar með aldri kemur væntanlega fram
í ítarlegri og flóknari textum, sem aftur endurspeglast á augljósastan hátt í vax-
andi lengd textanna með aldri, lengri setningum og hærra hlutfalli undirskipaðra
aukasetninga í hverjum texta.
3. Er munur á kynjunum í málnotkun eins og hér reynir á? Sitthvað bendir til þess að
íslenskar unglingsstelpur hafi að jafnaði betri málþroska en strákar (sjá m.a. Amalía
Björnsdóttir 2005) og því athyglisvert að kanna hvort sá munur kemur fram á þeim
breytum sem hér er fjallað um.