Uppeldi og menntun - 16.02.2007, Blaðsíða 145
145
HRAFNHILDUR RAGNARSDÓTTIR
AÐFERÐ
Þátttakendur
Þátttakendur í íslensku rannsókninni voru áttatíu talsins, jafnmargir (n=20) úr hverjum
aldursflokki og af báðum kynjum.
M-hópur (miðstig): 11 ára börn í 5. bekk grunnskóla.
U-hópur (unglingastig): 14 ára unglingar í 8. bekk grunnskóla.
F-hópur: 17 ára unglingar í 1. bekk menntaskóla (framhaldsskóli)
H-hópur: fullorðnir einstaklingar (26–42 ára) sem lokið höfðu háskólaprófi (mast-
ers- eða doktorsprófi). Helmingur hópsins var raunvísindafólk, hinn hug- og félags-
vísindafólk.
Við val á þátttakendum var stefnt að því að áhrif af öðrum breytum en frumbreyt-
unum ALDUR/SKÓLASTIG, KYN, TEXTATEGUND og MÁL yrðu sem jöfnust. Allir íslensku grunn-
og menntaskólanemarnir höfðu lokið samræmdum prófum árinu áður en gagnasöfn-
un hófst vorið 1999, og í rannsóknarhópana voru valdir einstaklingar sem höfðu verið
í hæsta fjórðungnum á samræmdu prófi í íslensku. Þátttakendur í hverjum aldurs-
flokki (fullorðnir undanskildir) voru fengnir úr sama skóla til þess að jafna hugsanleg
áhrif skóla og kennsluaðferða. Enginn þátttakenda átti sér sögu um sérstaka námsörð-
ugleika. Háskólafólkið var ýmist menntað á Íslandi eða erlendis, og starfaði flest sem
fræðimenn við ýmiss konar háskóla- eða rannsóknastofnanir.
Samstarfsverkefnið Developing literacy in different contexts and different languages náði
til Bandaríkjanna, Frakklands, Hollands, Ísrael, Spánar og Svíþjóðar auk Íslands4.
Jafnmargir þátttakendur voru frá öllum löndum og leitast var við að hafa aldur og
skólastig sambærilegt. Vegna mismunandi skólaskyldualdurs voru íslensku þátttak-
endurnir í þremur yngstu aldurshópunum um einu ári eldri en samsvarandi hópar
frá hinum löndunum.
Kveikja
Sama kveikja var notuð í öllum aldursflokkum (og öllum löndunum) til þess að kalla
fram frásagnir og álitsgerðir um sama þema hjá öllum þátttakendum. Þriggja mín-
útna leikið myndband án orða var búið til sérstaklega fyrir þessa rannsókn um efni
sem höfða mundi til allra þátttakenda jafnt og væri líklegt til að vekja með þeim við-
brögð. Myndbandið sýnir nokkrar senur úr lífi ungs fólks þar sem sviðsettir eru sam-
skiptaárekstrar með siðferðislegu ívafi sem allir kannast við: einelti, prófsvindl, smá-
þjófnaður, stympingar o.þ.u.l. Þátttakendum var sýnt myndbandið einum í senn. Í
kynningu á verkefninu var tekið fram að myndbandið og efni þess ætti ekki að vera
efniviður textanna sem slíkt, heldur væri því ætlað að kveikja minningar um atvik úr
eigin lífi þátttakenda.
4 Stjórnandi verkefnisins er dr. Ruth Berman, prófessor við háskólann í Tel Aviv. Íslenski verkefn-
isstjórinn er Hrafnhildur Ragnarsdóttir, en verkefnisstjórar hinna landanna eru Harriet Jisa, próf.
við Hásk. í Lyon, Frakklandi, Judy Reilly, próf. við Hásk. í San Diego, U.S.A., Sven Strömqvist,
próf. við Hásk. í Lundi, Svíþjóð, Liliana Tolchinsky, próf. við Hásk. í Barcelona, Spáni og Ludo
Verhoeven, próf. Max Planck Institut f. Psykolingvistik, Nijmegen, Hollandi