Uppeldi og menntun - 16.02.2007, Blaðsíða 14
„OFSALEGA ERF I T T OG ROSALEGA GAMAN“
14
Þá var hugað að því að líklegir kandídatar í úrtakið væru búnir að fá vinnu og engir
tveir störfuðu í sama skóla. Við valið var líka haft í huga að þátttakendur kenndu í
fjölmennum sem fámennum grunnskólum og á mismunandi aldursstigi. Aðgengi að
viðmælendum skipti einnig máli. Allt var þetta gert til að auka líkur á fjölbreytni í
bakgrunni þátttakenda og þar með að betri upplýsingar fengjust um viðfangsefnið.
Þátttakendur voru á aldrinum 25–53 ára. Aldursdreifing þátttakenda var ekki eitt af
markmiðum við valið en kom af sjálfu sér þegar áðurgreindir þættir voru lagðir til
grundvallar. Þátttakendur gáfu skriflegt leyfi og Persónuvernd var tilkynnt um rann-
sóknina.
Þrjú viðtöl voru tekin við hvern viðmælanda, samtals 24 viðtöl. Fyrstu viðtölin fóru
fram í ágúst, um það leyti þegar þátttakendur voru að hefja störf. Næstu viðtöl voru
tekin í síðari hluta janúar og þau síðustu um mánaðamót maí og júní. Eftirfarandi
þættir voru lagðir til grundvallar viðtölum: Hugmyndir og væntingar til starfsins,
starfstengdir þættir, svo sem undirbúningur kennslu og framkvæmd, samskipti við
nemendur og foreldra, hvers konar stuðning kennararnir fengju í starfi og á hvern hátt
kennaramenntunin nýttist þeim.
Viðtölin voru öll hljóðrituð, afrituð og þemagreind með hliðsjón af viðtalsrömmum.
Allir viðmælendur fengu viðtölin síðan til yfirlestrar til að tryggja að rétt væri farið
með og fengu þeir tækifæri til að leiðrétta ef þeim fannst það eiga við. Í rannsókninni
voru viðmælendum gefin gervinöfn. Við ítrekaða hlustun og lestur viðtalanna komu
fram fimm þemu sem varpað gátu ljósi á reynslu þátttakenda af því að kenna sitt
fyrsta ár (Kvale, 1996). Hér á eftir verða dregnar saman niðurstöður úr þeim tveim
þemum sem greinin fjallar um, en þau eru væntingar til nýs starfs og um kennsluna
– veruleika kennarastarfsins.
NIÐURSTÖÐUR
Fyrst eru dregnar saman helstu niðurstöður væntinga hinna nýju kennara til komandi
starfs og því næst er gerð grein fyrir reynslu þeirra af veruleikanum á vettvangi fyrsta
starfsárið. Í viðtölum að hausti voru viðmælendur inntir eftir því hvernig þeir réðu
sig til starfa, af hverju viðkomandi skólar urðu fyrir valinu og síðan voru þeir beðnir
um að lýsa væntingum sínum til verðandi starfs. Viðtölin í janúar og að vori spegla
reynslu þeirra og upplifun af því að vera kennari á fyrsta starfsári. Þar voru þeir með-
al annars beðnir um að gera grein fyrir því hvernig raunveruleikinn blasti við þeim í
skólastofunni. Var starfið eins og þeir bjuggust við? Hvað gekk vel og hvað var erfitt?
Hverjar urðu helstu framfarir þeirra yfir veturinn að þeirra eigin mati?
Væntingar til nýs starfs
Viðmælendur höfðu allir fengið loforð um starf þegar þeir ákváðu að taka þátt í rann-
sókninni. Þeir höfðu allir, utan einn, sótt um störf á hefðbundinn hátt og fengið loforð
um þau eftir viðtal við skólastjórnendur. Allir leituðu eftir störfum í skólum sem þeir
þekktu til.