Uppeldi og menntun - 16.02.2007, Blaðsíða 141
141
HRAFNHILDUR RAGNARSDÓTTIR
allri gagnasöfnun hagað þannig að gögnin væru sem sambærilegust, enda eitt mark-
miða verkefnisins að opna möguleika á að kanna það sem er sameiginlegt og það
sem er ólíkt í þróun málnotkunar af þessu tagi hjá einstaklingum sem tala ólík tungu-
mál og búa hver við sínar menningarbundnu áherslur í skólastarfi. Ekki er vitað um
aðra rannsókn í þessum aldursflokki sem tekur til bæði ritmáls og talmáls og tveggja
ólíkra textategunda á hverju tungumáli, og er hvort tveggja í senn þroskarannsókn og
samanburðarrannsókn milli tungumála. Nú þegar hafa nokkrar niðurstöður úr sam-
starfsverkefninu birst, m.a. í þemaheftum tímaritanna Written Language and Literacy
(2002, 1 og 2,) og Journal of Pragmatics (2005). Auk þess er fjöldi greina og bókarkafla
í vinnslu.
Í þessari grein er ekki svigrúm til að gera grein fyrir eða nýta þá fjölmörgu mögu-
leika sem rannsóknarsniðið opnar, heldur verður rannsóknin kynnt ögn nánar sem
og aðferðirnar sem beitt var í samanburðarrannsókninni, og síðan kynntar nokkrar
fyrstu niðurstöður íslensku rannsóknarinnar. Í umræðukafla í lok greinarinnar verða
íslensku niðurstöðurnar bornar saman við hliðstæðar niðurstöður frá hinum lönd-
unum sex þar sem því verður komið við.
Hér á eftir verður fyrst hugað að ýmsum einkennum textategundanna tveggja,
annars vegar frásagna og hins vegar álitsgerða; hvað er líkt með þeim og hvað ólíkt
og hvers vegna þær urðu fyrir valinu í þessari rannsókn. Því næst verður fjallað um
það sem vænta má að hafi hvað mest áhrif á textagerð og er frumbreyta í rannsókn-
inni, þ.e. ALDUR þátttakenda sem jafnframt endurspeglar allt í senn: almennan þroska,
lengd skólagöngu og reynslu af flóknu rit- og talmáli eins og reynir á í rannsókninni. Í
lok inngangs verða rannsóknarspurningarnar sem lagt var upp með í þessum áfanga
kynntar, og enn fremur þrenns konar vísbendingar um hvernig þróun orðræðu í sam-
felldu máli birtist í þessum aldursflokkum. Þessar vísbendingar eru (1) lengd text-
anna, sem gefur vísbendingu um hversu efnismiklir og ítarlegir þeir eru, (2) lengd
setninga í orðum, sem gefur vísbendingu um hversu setningafræðilega flóknar þær
eru (Scott, 2004), og (3) lengd málsgreina, þ.e. í hve ríkum mæli höfundar tengja aðal-
og aukasetningar saman í stærri heildir eða efnisgreinar, en hlutfall aukasetninga af
heildarfjölda setninga hefur verið talin góð vísbending um hversu flókinn texti er (sjá
m.a. Halliday og Hasan, 1976; Hrafnhildur Ragnarsdóttir, 1992 og 2004).
Textategundir – hvers vegna frásagnir og álitsgerðir?
Eitt af meginmarkmiðum rannsóknarinnar er að bera saman færni barna, unglinga og
fullorðins fólks í að semja ólíkar textategundir, og að kanna hvernig íslenskri tungu
er beitt við hverja um sig. Ástæður þess að fyrir valinu urðu frásagnir og álitsgerðir
(expository textar) voru m.a. þær að báðar krefjast þessar textategundir flókinnar mál-
notkunar af því tagi sem mikið reynir á í hvers kyns þekkingarmiðlun og þar með í
skólastarfi og menntun. Jafnframt eru frásagnir og álitsgerðir dæmi um eðlisólíkar
textagerðir sem gera mjög mismunandi vitsmuna- og málfarslegar kröfur bæði til höf-
undar og viðtakanda.
Ætla má að frásagnir séu í flestum skilningi auðveldari en álitsgerðir. Í rannsókn-
inni sem hér um ræðir voru þátttakendur t.d. beðnir um að segja frá atviki þar sem þeir