Uppeldi og menntun - 16.02.2007, Blaðsíða 190
190
um nám nemendanna sem er aðgengilegt sem upplýsingabanki fyrir þá og aðstand-
endur þeirra eftir atvikum.
Árið 2005 gaf framkvæmdastjórn Evrópusambandsins út skýrsluna Common Euro-
pean Principles for Teacher Competences and Qualifications sem er afrakstur samvinnu og
samráðs sérfræðinga á sviði kennslu og kennaramenntunar og hagsmunaaðila fjöl-
margra Evrópuríkja. Skýrslan er til marks um vaxandi vitund um að setja þurfi gæði
og inntak kennaramenntunar og færni kennara í starfi í forgang. Þar er birt sýn á
kennarastarfið og kennara með því að lýsa kennarastéttinni meðal annars með eftir-
farandi hætti: Kennarastéttin er háskólamenntuð stétt og hver kennari hefur góða
og víðtæka fagmenntun, góða kennslu- og uppeldisfræðimenntun, færni til að leið-
beina nemendum og styðja þá og skilning á félagslegum og menningarlegum þáttum
menntunar og skólastarfs. Kennarastéttin lærir alla ævi og nýtur stuðnings og hvatn-
ingar í starfsumhverfi sínu til að stunda símenntun, viðhalda þekkingu sinni, afla
nýrrar þekkingar og hagnýta hana í starfi sínu. Kennarar færa þekkingu sína yfir
landamæri þjóðríkja, mennta sig og starfa í öðrum löndum til að auka hæfni sína í
starfi. Kennarastéttin tengist kennaramenntunarstofnunum sem að sínu leyti vinna
náið með skólum, grenndarsamfélaginu, aðilum á vinnumarkaði og öðrum sem hags-
muna eiga að gæta.
Samhengi í kennaramenntun og skýr viðmið um hana skortir.
Í fyrrgreindri skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er sérstök áhersla
lögð á slaka stöðu símenntunar kennara í mörgum Evrópulöndum. Tiltölulega litlum
fjármunum sé varið til hennar, aðstæður kennara til að stunda símenntun séu ekki
nógu góðar og mikið er talið skorta á samhengi milli grunnmenntunar, framhalds-
menntunar og símenntunar kennara. Árið 2004 stóð OECD fyrir ráðstefnu í Amst-
erdam þar sem kynnt var efni skýrslunnar Teachers Matter. Attracting, Developing and
Retaining Effective Teachers, um kennaramenntun og starfsþjálfun kennara, nýliðun í
kennslu, kennarastarfið, starfsþróun og fleira. Í skýrslunni er að finna leiðbeiningar til
stjórnvalda og stefnumótunaraðila um viðmið og aðgerðir í málefnum kennara í því
augnamiði að auka gæði kennslu. Þetta er í samræmi við mikla og vaxandi áherslu á
alþjóðlegum vettvangi á að tengja beint saman stefnumótun um gæði menntunar og
skilvirkni skólakerfisins og markmið um vel menntaða og áhugasama fagstétt kenn-
ara í hverju landi. Þessi umfjöllun takmarkast ekki við almennar yfirlýsingar heldur
hefur hver könnunin, úttektin og skýrslan rekið aðra þar sem á ítarlegan og sund-
urliðaðan hátt er farið yfir málefni grunn-, framhalds- og símenntunar kennara, starfs-
þjálfun kennaraefna, skipulega leiðsögn nýliða, tengsl kennaranáms við starfsþróun,
val nemenda inn í kennaranám, val milli umsækjenda um kennarastöður, þátttöku
kennara í stefnumótun, fjallað er um rannsóknir á menntun og skólastarfi og þátttöku
kennara sjálfra í rannsóknum. Að sjálfsögðu er það misjafnt eftir löndum í hversu
góðu eða slæmu horfi ofangreind mál eru. Ég tel þó óhætt að fullyrða að á Íslandi sé
okkur hollt að líta í eigin barm um flest þessara atriða og horfast í augu við að bæði
þarf stefnumótun, fjármagn, sjálfsgagnrýni, hugvit og samstöðu til að koma þeim í
viðunandi horf.
V IÐHORF