Uppeldi og menntun - 16.02.2007, Blaðsíða 153
153
HRAFNHILDUR RAGNARSDÓTTIR
UMRÆÐA
Í þessari grein hef ég kynnt í megindráttum rannsóknina Mál í notkun: tal- og ritmál
barna, unglinga og fullorðinna og fyrstu niðurstöður hennar. Þátttakendur í rannsókn-
inni voru 80 Íslendingar, jafnmargir úr hverjum fjögurra aldursflokka/skólastiga: 11
ára (5. bekkur grunnskóla), 14 ára (8. bekkur), 17 ára (1. bekkur framhaldsskóla) og
fullorðnir háskólaborgarar á aldrinum 26–40 ára. Hver þátttakandi samdi fjóra texta af
tvennu tagi frá eigin brjósti: annars vegar frásagnir og hins vegar almenna umfjöllun
(álitsgerð eða expository texta), og hvora textategund fyrir sig bæði í talmáli og rit-
máli. Sú færni sem reynir á í gerð textanna fjögurra er gott dæmi um þá málnotkun
sem er undirstaða þróaðs læsis og miðlunar í skóla og þekkingarsamfélagi.
Í þessari fyrstu vinnslu úr gagnabanka rannsóknarinnar var sjónum beint að mjög
almennum, mælanlegum vísbendingum um eftirfarandi atriði:
a) Hvort málfarslegur munur væri á textategundunum tveimur,
b) Um þróun/framfarir í málnotkun á milli skólastiganna fjögurra.
c) Um kynjamun.
Í þessum umræðukafla verður auk þess hugað að því hvort íslenski hópurinn skeri
sig á einhvern hátt frá hinum þátttakendunum í alþjóðlegu rannsókninni og ef svo
er, hvort tengja megi þann mun við mismunandi áherslur í menningu og skólastarfi
þjóðanna. Vísbendingarnar (þ.e. fylgibreyturnar) sem athugaðar voru að þessu sinni
voru nánar tiltekið: heildarlengd textanna í setningum talið, lengd setninga (í orðum)
og hlutfall aukasetninga (eða lengd og samsetning málsgreina).
Lengd er að sjálfsögðu ekki einhlítur mælikvarði á gæði texta – langur texti getur
þvert á móti endurspeglað slakt skipulag og froðusnakk, en stuttur, hnitmiðaður texti
verið aðalsmerki hins agaða hugsuðar og stílista. Þetta á þó fyrst og fremst við um
þroskaða höfunda – stuttur texti barns eða unglings ber þess oftast skýr merki að
höfundurinn ræður ekki við að rekja flókna atburðarás þar sem atburðir tengjast í við-
eigandi orsakasamhengi (sjá dæmi 1 í inngangi) eða tefla fram ólíkum sjónarhornum,
rökstyðja þau og bera saman í álitsgerð (sjá dæmi 3 í inngangi). Börn leggja heldur
ekki til bakgrunnsupplýsingar í sama mæli og þroskaðri höfundar, né heldur túlkanir
eða skýringar sem auðvelda viðtakanda að lifa sig inn í umfjöllunarefnið og taka til
þess afstöðu. Það þarf snjallan höfund til að segja áhrifamikla sögu eða gera siðferð-
islegri togstreitu skil í tíu setningum! Lengd reynist því vera nokkuð góð vísbending
um gæði texta barna og unglinga (sjá m.a. Hrafnhildur Ragnarsdóttir, 1992 og 2004;
MacCabe, 1997; Stein og Albro, 1997).
Hlutfall aukasetninga (lengd málsgreina) er ekki heldur einhlítur mælikvarði á
texta, þó notkun þeirra sé af mörgum fræðimönnum talin einn sá besti um þróun sam-
fellds máls á bernsku- og unglingsárum (Halliday og Hasan, 1976; Hrafnhildur Ragn-
arsdóttir, 1992, 2004; Hrafnhildur Ragnarsdóttir og Strömqvist, 2004). Ástæðan er sú
að aukasetningar eru ein helsta aðferð margra tungumála – þar á meðal íslenskunn-
ar – til þess að koma að upplýsingum um bakgrunn, flóknar tímatengingar atburða,
rökrænt samhengi og fleira sem einkennir góða texta, en er ekki á valdi ungra barna