Uppeldi og menntun - 16.02.2007, Blaðsíða 53
53
ERNA INGIBJÖRG PÁLSDÓTTIR
Pearson ki-kvaðrat er marktektarpróf þar sem mögulegt er að meta hvort tveir hópar
séu það ólíkir í ákveðinni mælingu að óhætt sé að fullyrða að svo sé einnig í þýði.
HELSTU NIÐURSTÖÐUR
Stefna skóla í námsmati
Í mörgum skólum hefur verið unnið að gerð og mótun skólanámskráa á undanförnum
árum. Þar koma venjulega fram þættir eins og námsmarkmið, náms- og kennslugögn
og mat á námsárangri. Til að kanna viðhorf kennara til stefnumótunar skólans í náms-
mati voru þátttakendur beðnir um að taka afstöðu til sex staðhæfinga og einnig að
leggja mat á hvað kæmi fram um námsmat í skólanámskránni. Flestir svarendanna,
eða tæp 70%, eru því sammála að unnið sé að því að efla og bæta námsmat og ein-
ungis 8% eru ósammála staðhæfingunni. Þegar spurt var hvort auka þyrfti áherslur á
námsmat í skólastarfinu var rúmlega helmingur svarenda sammála því að auka þyrfti
áherslu á námsmat í skólastarfinu en rúm 16% ósammála. Einnig kom fram að tæp
60% þátttakenda voru sammála því að skólinn hefði mótað og birt stefnu sína um
námsmat en tæplega fimmtungur ósammála. Þá er rúmlega helmingur svarenda sam-
mála því að hin opinbera stefna skólans í námsmati sé skýr en tæplega fjórðungur
ósammála.
Til að fá heildarmynd af námsárangri nemenda er mikilvægt að nota fjölbreyttar
matsaðferðir. Niðurstöður sýna að rúm 59% svarenda segjast sammála því að skólinn
leggi áherslu á fjölbreyttar námsmatsaðferðir í skólastefnu sinni og einungis 16% eru
ósammála. Þó að opinber stefna skóla hafi verið mótuð og birt þarf námsmatið að end-
urspegla kennsluna, og eru 57% svarenda sammála því að stefna skólans í námsmati
veiti kennurum fullt frelsi til að velja eigin matsaðferðir en fjórðungur svarenda er
ósammála staðhæfingunni. Í töflu 1 má sjá hvað flestir í kennarahópnum telja að komi
fram í stefnu skólans í námsmati.
Tafla 1 – Atriði sem fram koma í stefnu skólans í námsmati.
Í skólanámskránni kemur fram: %
• hvaða matsaðferðir eru notaðar – próf, ritun, verkbundið mat, umræður 76,7%
• hvaða aðrir þættir eru lagðir til grundvallar námsmatinu, svo sem frammistaða,
hæfileikar, hegðun, vinnubrögð, samvinna, heimanám 64,9%
• hvaða markmið eru lögð til grundvallar námsmatinu 64,2%
• hvers konar námsmat skólinn leggur áherslu á, svo sem símat, stöðumat,
heildarmat, greiningarmat 30,9%
• hvernig námsmatið er uppbyggt og upplýsingar birtar 23,6%
Einnig var kannað hvort munur væri á afstöðu þátttakenda eftir starfsreynslu og
stærð skólanna. Niðurstöður sýna að nær allir kennararnir í miðlungsstóru skólunum