Uppeldi og menntun - 16.02.2007, Blaðsíða 120
120
HVAÐ SEGJA TE IKN INGAR BARNA UM HUGMYNDIR ÞE I RRA UM L ÍKAMANN S INN?
Í rannsókn Cuthbert (2000) á 348 börnum á aldrinum 7–11 ára voru börnin beðin
um að teikna það sem þau héldu að væri innan í líkamanum og skrifa heiti líffæra
og beina. Meirihluti barnanna teiknaði frekar smá, ótengd líffæri á víð og dreif um
líkamann. Flest börnin teiknuðu hjarta og um helmingur allra barnanna teiknaði
V-laga hjarta. Stór hluti barnanna teiknaði bein á nokkurn veginn réttum stöðum en
mörg þeirra teiknuðu beinin eins og „hundabein“ og tengdu þau ekki saman með
liðamótum. Meirihluti barnanna teiknaði heilann en flest án nokkurra tenginga við
taugar eða mænu.
Niðurstöður ensku SPACE rannsóknarinnar (Osborne o.fl., 1992) sýna að yngstu
börnin sem tóku þátt (5–6 ára), teiknuðu helst bein, líffæri og líkamshluta sem þau
gátu séð, komið við eða „heyrt í“, svo sem hjartað sem slær og beinin í útlimum og
flest börnin töldu að vöðvar væru helst á upphandleggjum og lærum. Börnin í rann-
sókninni voru látin teikna matinn í maganum og mörg yngstu barnanna teiknuðu
magann eins og poka fullan af ómeltum mat. Í rannsókninni voru nemendur látnir
teikna fyrir og eftir kennslu um meltinguna til að meta framfarirnar. Niðurstöður
sýndu að í mörgum tilfellum breyttust hugmyndir yngstu nemendanna (5–7 ára)
meira samkvæmt teikningum þeirra en hinna eldri (8–11 ára). Breytingarnar birtust
einkum í auknum fjölda líffæra sem yngstu börnin teiknuðu eftir kennsluna. Miðhóp-
urinn (8–9 ára) sýndi líka greinilegar framfarir en litlar sem engar breytingar urðu á
hugmyndum elstu barnanna (10–11 ára). Það kemur ekki á óvart því upphafsþekking
þeirra er meiri samkvæmt teikningum þeirra og þess vegna bæta þau ekki eins miklu
við þekkingu sína og yngri börnin (Osborne o.fl., 1992).
Í rannsókn Carvalho o.fl. (2004) voru 5 til 8 ára börn beðin að teikna mynd af melt-
ingarfærunum og leið matarins í gegnum líkamann en áður voru þau beðin um að
borða smáköku og sýna síðan á teikningunni hvernig hún liti út í maganum. Niður-
stöður sýndu að þótt þau hefðu tuggið og borðað kökuna teiknuðu flest börnin hana
heila í maganum og flest eldri barnanna, 7 og 8 ára, áttu erfitt með að sýna tengingar
milli líffæranna sem tengjast meltingunni. Samkvæmt Carvalho o.fl. eru teikningar
barna á þessum aldri af meltingunni frekar táknmyndir en raunmyndir og í rannsókn
þeirra kom einnig fram að meirihluti 7 og 8 ára nemenda notaði myndir í kennslubók-
inni sem sýndu meltingarfærin sem fyrirmynd og þær endurspegluðu ekki endilega
hugmyndir barnanna.
Í þeim rannsóknum sem hér hafa verið nefndar voru teikningar notaðar sem rann-
sóknaraðferð til að afla upplýsinga um þær hugmyndir sem börn í yngstu bekkjum
grunnskóla hafa um líkamann þ.e. helstu bein og líffæri. Aðeins í SPACE rannsókn-
inni (Osborne o.fl., 1992) voru viðtöl einnig notuð til að kanna hugmyndir barnanna
frekar og gáfu þær þá ítarlegri upplýsingar um hugmyndir barnanna. SPACE rann-
sóknin var einnig eina rannsóknin af þeim sem hér eru nefndar þar sem nemendur
voru látnir teikna fyrir og eftir ákveðna kennslu til að meta framfarirnar. Þó að þessar
rannsóknir eigi það sameiginlegt að hafa notað teikningar sem rannsóknaraðferð til
að afla upplýsinga um hugmyndir barna um líkamann gefa þær takmarkaðar upplýs-
ingar um það hvernig hugmyndir barna og þekking á staðsetningu, útliti og hlutverki
mismunandi beina og líffæra líkamans þróast við kennslu og hvað í kennslunni hefur