Uppeldi og menntun - 16.02.2007, Blaðsíða 119
119
GUNNHILDUR ÓSKARSDÓTTIR
smíðahyggja er höfð að leiðarljósi í kennslu er áhersla lögð á að kanna forhugmyndir
nemenda og tekið mið af þeim við undirbúning náms og kennslu (Bruner, 1996; Bruner
og Haste, 1987). Á þetta er bent í Aðalnámskrá grunnskóla, náttúrufræði (1999). Þess
vegna verður kennarinn, alveg eins og leiðsögumaðurinn, að vita hvar nemandinn er
staddur til að geta vísað honum til vegar (Selley, 1999). Þá vaknar spurningin um það
hvernig þessar hugmyndir verði kannaðar. Ein aðferð við að kanna hugmyndir nem-
enda er að biðja þau um að setja fram skilning sinn með teikningu.
RANNSÓKNIR Á FRÆÐASVIÐINU
Allmargar rannsóknir hafa verið gerðar þar sem teikningar barna eru notaðar til að
kanna hugmyndir þeirra og þekkingu á ýmsum hlutum og fyrirbærum í náttúrunni og
hafa þær sýnt að teikningar barna geta gefið mikilvægar upplýsingar um hugmyndir
þeirra (Osborne, Wadsworth og Black ,1992; Black og Harlen, 1995; Haney o.fl., 2004).
Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á hugmyndum barna um mannslíkamann þar
sem m.a. teikningar hafa verið notaðar sem rannsóknaraðferð. (Osborne o.fl., 1992;
Reiss and Tunnicliffe, 1999a, 1999b, 2001; Reiss, Tunnicliffe, Andersen, Bartoszeck,
Carvalho, Chen, o.fl. 2002; Cuthbert, 2000; Carvalho, Silva, Lima og Coquet, 2004).
Reiss og Tunnicliffe (1999a) gerðu rannsókn á hugmyndum 102 barna á aldrinum
5 til 11 ára þar sem þau voru beðin að teikna allt sem væri inni í líkamanum. Börnin
fengu 10 mínútur til að teikna og hjálp var veitt við að skrá heiti líffæra og beina ef
þurfti. Teikningarnar voru greindar samkvæmt 7 þrepa kvarða, sem Reiss og Tunnicliffe
þróuðu, um þekkingu á beinum og beinagrindinni. Niðurstöður sýndu að þriðjungur
yngstu barnanna, 5 og 6 ára, höfðu mjög litla eða enga þekkingu á beinunum. Einnig
sýndu niðurstöður að það var þó nokkur munur á hugmyndum innan aldurshópa þar
sem t.d. 10/11 ára barn lenti á þrepi 6 á kvarðanum en annað barn á sama aldri á þrepi
3 (Reiss og Tunnicliffe, 1999a).
Reiss og Tunnicliffe gerðu aðra rannsókn á hugmyndum barna um líkamann þar
sem 158 börn á aldrinum 5–11 ára voru beðin að teikna það sem væri innan í þeim en
nú var athygli þeirra beint að líffærunum en ekki beinunum. Hvert barn teiknaði hér
líka aðeins eina mynd og voru myndirnar greindar samkvæmt 7 þrepa kvarða um líffærin
sem Reiss og Tunnicliffe þróuðu einnig. Eins og við mátti búast lentu eldri börnin ofar
á kvarðanum en þau yngri. Hins vegar kom í ljós að um 8 ára aldur höfðu þau flest
nokkuð góða þekkingu á innri byggingu líkamans og mismunandi líffærum þó þau
vissu ekki hvernig líffærin tengdust eða að þau væru hluti af stærri líffærakerfum
(Reiss and Tunnicliffe, 2001). Í þessum rannsóknum eru Reiss og Tunnicliffe eingöngu
að skoða hvaða hugmyndir börn á ákveðnum aldri hafa um líkamann. Þau setja um-
ræðuna ekki í sérstakt samhengi við kennslu eða skoða áhrif hennar en benda á þann
möguleika að teikningar yngstu barnanna gefi ekki skýra mynd af þekkingu þeirra
því teiknihæfileikar þeirra og lítt þróaðar fínhreyfingar geti hamlað þeim að tjá þessa
þekkingu. Einnig benda þau á að eldri börnin hafi að öllum líkindum lært eitthvað um
líkamann í skólanum en einnig geti börnin hafa lært af sjónvarpi, bókum, myndum og
spítalaheimsóknum (1999a og 2001).