Uppeldi og menntun - 16.02.2007, Blaðsíða 166
166
HÁSKÓLAST IG IÐ Í L JÓS I HNATTVÆÐINGAR
endahópa í háskólum geri auknar kröfur til háskólakennara og nemenda. Kröfurnar
séu fyrst og fremst þær að komið sé til móts við þarfir erlendra nemenda sem oft
standa frammi fyrir nýjum og framandlegum félags- og menningarlegum venjum og
gildum, ókunnuglegum kennslu- og námsaðferðum og öðrum væntingum og venjum
um þátttöku og framkomu en þeir hafa áður kynnst. Að auki fylgi þeim oft miklar
væntingar fjölskyldu og vina í upprunalandinu um velgengni í námi.
McLean og Ransom (2005) benda á að erlendir háskólanemendur séu í flestum til-
vikum metnir út frá viðmiðum og gildum landsins þar sem þeir stunda nám og gert
ráð fyrir að þeir þekki og skilji þessi viðmið. Vandamál sem upp komi séu því talin
mál nemendanna sjálfra, það sé þeirra ábyrgð að laga sig að viðkomandi viðmiðum
og gildum. Ný nálgun í háskólum þar sem nemendahópar eru fjölbreyttir væri að
reyna að átta sig á þeirri hæfni og reynslu sem einstaklingar í nemendahópum búa
yfir og væntingum þeirra til kennara. McLean og Ransom (2005) og Dunn og Carroll
(2005) leggja áherslu á að kennsla í háskóla þar sem nemendahópar eru fjölbreyttir
þurfi að fela í sér umburðarlyndi og virðingu fyrir því sem er ólíkt hefðbundnum
viðmiðum skólans. Í þessu samhengi er einnig fjallað um mikilvægi sveigjanlegra
kennsluhátta og samvinnu kennara í þróun hentugra kennsluaðferða fyrir fjölbreytta
nemendahópa.
Fjölbreyttir nemendahópar og þróun námskráa í kennaranámi
Yfirlýsing UNESCO um menningarlegan fjölbreytileika var samþykkt samhljóða á 31.
þingi UNESCO árið 2001 (UNESCO, 2007). Í yfirlýsingunni felst m.a. að menning-
arleg réttindi séu óaðskiljanlegur hluti mannréttinda. Samkvæmt henni eiga allir rétt
til að tjá sig, skapa og dreifa verkum sínum á tungumáli að eigin vali, sérstaklega á
eigin móðurmáli, og allir eiga rétt á vandaðri menntun og þjálfun sem virðir að fullu
menningarlega sjálfsmynd þeirra. Yfirlýsingin styður einnig fjöltyngi og leggur m.a.
áherslu á eftirfarandi: 1) Að hvetja til fjölbreytileika tungumála – um leið og móð-
urmál eru virt – á öllum stigum menntunar, hvar sem kostur er og hlúa að námi í
nokkrum tungumálum frá unga aldri og 2) að efla með menntun skilning á jákvæðu
gildi menningarlegs fjölbreytileika og að bæta í þessum tilgangi námskrár og kenn-
aramenntun.
Bent hefur verið á mikilvægi þess að kennarar í leik- og grunnskólum séu af ólíkum
uppruna og með fjölbreytt móðurmál, þar sem slíkt endurspegli samfélagsbreyting-
ar, þ.e. hnattvæðingu og þróun fjölmenningarsamfélaga (sjá American Association of
Colleges for Teacher Education, 2003, 2004). Í grein Cordeiro o.fl. (2003) kemur fram
að fræðimenn þurfi að leiða hugann að því hvað hnattvæðing merki fyrir börn og ung-
menni í skólum og í því samhengi, hvers konar menntun kennaranemar fái til að sinna
því verkefni að mennta börn í hnattvæddum samfélögum. Við þetta vakna spurning-
ar, svo sem hvernig skuli mennta börn fyrir þennan veruleika, hvers konar hæfni þeim
sé nauðsynleg og að hve miklu leyti alþjóðleg sýn eigi heima í almennri menntun.
Sýnt hefur verið fram á að menntun sé e.t.v. eina nothæfa langtímalausnin sem vinnur
gegn fordómum, auk þess sem fjölmenningarsamfélög nútímans geri auknar kröfur
um þvermenningarlega færni. Því má álykta að í kennaramenntun þurfi að þjálfa al-