Uppeldi og menntun - 16.02.2007, Blaðsíða 41
41
ANNA ÞÓRA BALDURSDÓTTIR, VALGERÐUR MAGNÚSDÓTTIR
LOKAORÐ
Eins og fram kom í fyrstu greininni um niðurstöður þessarar rannsóknar virðist vinnu-
gleði kennara hafa aukist á undanförnum árum. Þeir hafa orðið uppteknari af áhuga,
árangri og vellíðan nemenda en áður og einnig af samskiptum, stuðningi, hrósi og
hvatningu frá stjórnendum og samstarfsfólki. Starfsumhverfislíkan Leiter og Maslach
og eigin spurningar rannsakenda gefa þá mynd að það skipti verulegu máli að sam-
ræmi sé í gildismati kennara og vinnustaðarins, að þeir séu sáttir við starfssamfélag
sitt og sanngirni ríki. Einnig þurfa þeir að vera sáttir við þá umbun sem þeir fá, ekki
síst þá þætti sem snúa að samskiptum við þá sem næst standa, hvatningu, stuðning og
hrós frá samkennurum, stjórnendum, foreldrum, nemendum og öðrum.
Sú skoðun kennara að vinnuálag sé of mikið er svo almenn og sterk að hana verður
að taka alvarlega. Sextán af hundraði þeirra nefndu vinnuálag einnig sem aðalástæðu
þess að hafa hugleitt að hætta kennslu, eins og fram kemur í fyrstu grein. Full ástæða
er fyrir skólayfirvöld að kanna málið nánar, skilgreina ástæður og íhuga hvað geti
verið til ráða. Snýst þetta um starfstíma kennara eða skóla, skipulag skólastarfs,
vinnutímaskilgreiningar í kjarasamningum, hefðir eða eitthvað allt annað? Það skiptir
miklu máli að grunnskólakennurum líði vel í starfi. Þeir eru stór starfsstétt og vellíðan
og árangur tugþúsunda nemenda veltur á því hvernig til tekst í skólanum.
Áhugavert er að skoða nánar þá þætti í starfsumhverfislíkaninu sem enga fylgni
sýndu, sérstaklega hvort kennarar séu ánægðir með sjálfræði sitt í starfi innan þeirra
marka sem starf í stórum skólum setur þeim.
Í rannsóknum hefur hvað eftir annað komið fram að kulnun er algengari meðal
kennara en flestra annarra starfsstétta (Hakanen, Bakker og Schaufeli, 2006; Maslach
og Schaufeli, 1993; Maslach, 1982). Þrátt fyrir það má ætla að mikill hluti kennara
haldi óskertri vinnugleði og virkni í starfi og upplifi ekki kulnun (Hakanen, Bakker
og Schaufeli, 2006). Niðurstöður þessarar rannsóknar benda þó til þess að svo margir
kennarar finni fyrir vanlíðun eða kulnun að ástæða sé til fyrir skólayfirvöld að kanna
viðhorf þeirra og líðan betur. Kennararnir í þessari rannsókn kalla eftir góðum sam-
skiptum, virkri umbun og hóflegu vinnuálagi, og niðurstöður sýna einnig að góð sam-
svörun í gildismati skóla og kennara skiptir miklu máli.
Þriðji hluti rannsóknarinnar fjallar um notkun á spurningalista til að meta faglegt
sjálfstraust kennara. Benda óbirtar niðurstöður til þess að hann gagnist bæði sem
mælikvarði á faglegt sjálfstraust þeirra og til að skýra líðan þeirra í starfi.