Hugur - 01.06.2011, Síða 8
6
Inngangur ritstjðra
urinn sem brýtur allar reglur. Hún reynir að kenna öðrum vísindum hvernig á að
hugsa en um leið telur hún sig vera hafna yfir þröngar skorður fræðilegra hefða.
Hún heldur utan um rammann og reynir um leið að komast út fyrir hann.
Sigríður Þorgeirsdóttir hefur á undanförnum árum skapað sér nokkra sérstöðu
meðal íslenskra heimspekinga með því að sameina öguð fræðileg vinnubrögð til-
raunum til þess að spenna út mörk heimspekilegra rannsókna á nýstárlegan hátt.
I þessu hefti Hugar er birt áhugavert viðtal við Sigríði þar sem hún segir meðal
annars frá því hversu undarlegt það sé að spyrja einhvern sem leggur stund á
heimspeki hvað hann eða hún ætli sér að gera við heimspekina; nær væri að spyrja
hvað heimspekin muni gera við viðkomandi. En eins og lesendur viðtalsins munu
skjótt gera sér grein fyrir er Sigríður löngu orðin virkur þátttakandi í sambandinu
milli hennar sjálfrar og þessarar fræðigreinar sem hún tók svo miklu ástfóstri
við. Alþjóðlegi jafnréttisskólinn GEST og Edda, öndvegissetur í gagnrýnum
samtímarannsóknum, eru dæmi um nýjar víddir í rannsóknastarfi og kennslu við
Háskóla Islands og hefur Sigríður unnið mikilvægt og ómælt starf til þess að
gera þær að veruleika. Asamt þessu frumkvöðlastarfi hefur hún einnig birt fjölda
greina og bókarkafla um heimspeki sem eftir hefur verið tekið á alþjóðlegum vett-
vangi. Það var því mikið gleðiefni að hún féllst á viðtalið sem Kristian Guttesen,
meistaranemi í heimspeki, tók við hana á sumarmánuðum.
Forveri minn í stól ritstjóra Hugar, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, segir frá því í
inngangi sínum að 21. hefti tímaritsins að hún hafi í grunnnámi sínu við Háskóla
íslands aldrei setið tíma hjá kvenkyns kennara. Ég sat eina málstofu sem Sigríður
kenndi undir lok náms míns við Háskóla Islands. Vissulega voru það mikil við-
brigði að sitja tíma hjá kvenmanni, en mér er þó minnistæðast hversu sterk áhrif
sérstök sýn Sigríðar á heimspekina hafði á mig. Málstofan nefndist „Heimspeki
og/eða frumspeki" og í henni lásum við Sygdommen til Deden eftir Kierkegaard
og „Was ist Metaphysik?" eftir Heidegger. I tilefni af viðtalinu við Sigríði vildi
ég birta íslenskar þýðingar þessara texta. Verk Kierkegaards er auðvitað töluvert
að vöxtum og því læt ég duga að birta íslenska þýðingu á formála, inngangi og
upphafi fyrsta kafla verksins, en ritgerð Heideggers er birt í heild sinni. Þýðing
Magnúsar D. Baldurssonar á henni hefur lengi gengið manna á milli í hand-
riti og er það sérstakt tilhlökkunarefni að geta loksins komið henni á prent með
góðfúslegu leyfi Klostermann-útgáfunnar. Sjálfur er ég ákaflega þakklátur fyrir
að hafa kynnst frumspekilegri sýn þessara tvegga heimspekinga áður en ég hélt
út í framhaldsnám. Ahrif þeirra eru ekki bein í heimspekirannsóknum mínum,
en það er geysilega mikilvægt að hafa tilfinningu fyrir því hvernig frumspekin er
samofin grundvallargeðshræringum tilvistar okkar. Frumspekileg hugtök eins og
„nauðsyn" og „möguleiki“ byggja ekki einungis á röklegum grunni.
Þema heftisins sameinar tvo þætti sem ég tengi hvað skýrast við heimspeki
Sigríðar: frumspeki og náttúru. Þemað er sem sagt frumspekileg vídd náttúru-
hugtaksins. Á undanförnum árum hefur umræða um siðferðilega vídd hugtaksins
loksins náð einhverju flugi á Islandi. Þetta hefti er tilraun til þess að vekja annars
konar umræðu þar sem náttúruhugtakið einskorðast ekki við hlutverk sitt sem
einhvers konar samheiti við „umhverfi". Hugtakið er margrætt og viðhorf okkar