Hugur - 01.06.2011, Blaðsíða 49
Að skoða náttiiru til að skoða náttúru
47
miklu leyti til þess að rannsóknir á mannlegri hegðun og afstöðu manna til ýmissa
hluta í heiminum geti talist rannsóknir á náttúrunni. Það er náttúruskoðun í þess-
um skilningi sem fyrri helmingur titilsins hér að ofan vísar til. Seinni helmingur
titilsins vísar hins vegar til frumspekilegs eðlis og þar gef ég mér forsendu sem er
kannski á vissan hátt tengd hinni fyrri, þótt önnur sé. Eg geng út frá því að allir
hlutir eigi sér eðli, eða „náttúru“, jafnt þeir sem eru til af manna völdum sem þeir
sem orðið hafa til óháð okkar bjástri. Þetta felur auðvitað í sér annan skilning á
eðlishugtakinu en þann sem Aristóteles lagði til og allmargir hafa viljað halda í
síðan. Eðli hlutar getur því falið í sér eitthvað á borð við þann tilgang sem sá sem
skapaði hlutinn ætlaði honum. Eðlið er það sem gerir hlutinn að því sem hann er,
hvort sem um er að ræða ritvinnsluforrit eða engisprettu.
Eins og flestir kannast við er orðið ‘náttúra’ notað á ýmsa vegu. Stundum er
talað um hreina og óspillta náttúru og þá sjáum við gjarnan fyrir okkur svæði
sem við mannverurnar höfum ekki raskað með athöfnum okkar, hvorki beint né
óbeint. I svipuðu samhengi er talað um hreinar náttúruafurðir og sagt að hitt
eða þetta sé náttúrulegt. Þar virðist gengið út frá því að eftir því sem maðurinn
hefur átt meira við hluti verði þeir minna náttúrulegir. Epli sem vex á tré telst
náttúrulegt (nema það sé erfðabreytt eða með öðrum hætti ræktað með mikilli
aðkomu mannanna) og ef við búum til úr því mauk telst það hrein náttúruafurð.
Ef við tökum hins vegar að blanda miklu saman við maukið, ekki síst ef um er að
ræða svokölluð kemísk efni, eða efni sem maðurinn hefur búið til, þá er það ekki
lengur kallað hrein náttúruafurð.
Þegar talað er um náttúru í þessum skilningi geta skilin milli hins náttúrulega
og hins ónáttúrulega verið mjög óljós. Hvað þurfa mannverur að hafa átt mikið
við hluti til að þeir hætti að vera náttúrulegir? Þessi skilningur virðist byggja á
einhvers konar skilum milli manns og náttúru. Annar skilningur á orðinu ‘náttúra’
er að náttúran sé meira og minna allt sem á jörðinni er. I þessum skilningi eru
mannverur eins og hverjar aðrar lífverur hluti af náttúrunni. Mannlegar afurðir
eru að sama skapi hluti af náttúrunni, rétt eins og afurðir annarra lífvera, maurabú,
býkúpur, bjórastíflur og svo framvegis, eru hluti af náttúrunni. Ég kýs að halda
mig meira við þennan seinni náttúruskilning, fyrst og fremst vegna þess að hinn
fyrri byggir á einhvers konar tvíhyggju þar sem maður er eitt og náttúra annað og
ég er engan veginn viss um að slíka tvíhyggju sé hægt að verja.
Annað orð sem ég nota og er ekld síður margrætt er orðið ‘eðli’. Ég nota það hér
á svipaðan hátt og ‘essence’ er notað á ensku, fremur en ‘nature’, þótt langt sé frá
því að skilin þar á milli séu alltaf ljós. Og ég geng hér út frá ákveðinni eðlishyggju
á borð við það sem kallast ‘essentialism’ á ensku. Það sem ég hef sagt um nátt-
úruna ætti að einhverju leyti að skýra notkun mína á orðinu ‘eðli’. Þar sem ég hef
efasemdir um að draga skýr mörk milli manns og náttúru tel ég litla ástæðu til að
ganga út frá því að aðeins þeir hlutir sem flokkast sem náttúrulegir í einhverjum
þröngum skilningi hafi eðli.
Eins og svo margt annað er eðlishugtakið gjarnan rakið til Aristótelesar en í
Frumspekinni talar hann um to ti én einai (það sem það er að vera) og to ti esti (það
sem það er) hlutanna. Þetta eðli er einhvers konar skilgreining hlutarins og á í