Hugur - 01.06.2011, Blaðsíða 50
48
Eyja Margrét Brynjarsdóttir
sínu tærasta formi aðeins við um verundir. Aðeins verundir geta haft frumeðli,
eða fyrsta stigs eðli, en eiginleikar geta haft afleitt eða annars stigs eðli. Jafnframt
er ekki hægt að hengja frumeðli á hvaða lýsingu sem er á verundinni heldur
felst það fyrst og fremst í náttúrulegri tegund hennar. Arfleifð Aristótelesar hefur
auðvitað þróast með ýmsum hætti í meðförum annarra en sá kjarni hefur verið
nokkuð lífseigur í eðlishugtakinu að það eigi best, eða einvörðungu, við það sem
kalla má náttúrulegt. Þannig hafi náttúrufyrirbæri til dæmis eðli en smíðisgripir
ekki.
Samkvæmt þessari mynd er eðli hlutar eitthvað sem er til staðar án þess að
mannshugurinn ltomi þar nærri. Eðlið, það sem gerir hlutinn að því sem hann er,
kemur frá náttúrunni og getur ekki verið eitthvað sem maðurinn hefur úthlutað.
Smíðisgripur getur samkvæmt þessu ekki haft eðli því það sem gerir hlut að til
dæmis gaffli hefur eitthvað með það að gera að við mannverurnar höfum búið
hann til í ákveðnum tilgangi og látum hann gegna ákveðnu hlutverki. Þetta er
hins vegar ekki sú mynd af eðli sem ég set fram hér. I stuttu máli sé ég ekkert
því til fyrirstöðu að hlutur sé það sem hann er, og hafi þannig eðli, þó að það sé
tilkomið af manna völdum. Samkvæmt þessu víðara eðlishugtaki sem ég geng
út frá getur eðli verið félagslega smíðað. Dæmi um þessa mynd af eðli má finna
hjá femínísku heimspekingunum Charlotte Witt og Sally Haslanger. Witt tekur
dæmi af kóksjálfsala til marks um þennan skilning á eðli.Til að hlutur geti talist
kóksjálfsali þarf hann að hafa það hlutverk að gefa frá sér kókdós í skiptum fyrir
peninga. Það að hafa þetta hlutverk er eðli kóksjálfsala, en það er augljóslega til-
komið af mannavöldum.3 Haslanger gefur svipaða mynd af eðli þegar hún talar
um kyneðli. Hún telur að það að vera kona, eða það að vera karl, fehst í stöðu
viðkomandi í samfélaginu sem mótast af hugmyndum samfélagsins um hlutverk
viðkomandi í æxlunarferlinu.4 Kyneðli er, samkvæmt Haslanger, félagslega smíð-
að en það er ekkert minna raunverulegt fyrir vikið.
Hér verður ekki kafað dýpra í það hvernig best sé að skoða eðlishugtakið. Það
sem skiptir máli er að ég geng hér út frá því að hlutur sé ekkert síður það sem
hann er þótt hugsanir og/eða atferli mannanna gegni stóru hlutverki í að gera
hann að því sem hann er. Og þetta sem gerir hlutinn að því sem hann er kalla ég
eðli hans.
Peningar
Samkvæmt svokölluðum samkomulagskenningum (e. collective agreement theories)
um eðli peninga, sem hafa verið leiðandi í þeim efnum að undanförnu, eru pen-
ingar félagsleg fyrirbæri sem fela í sér samkomulag.5 Tiltekinn hlutur hefur pen-
ingalegt gildi þá og því aðeins að við, sem samfélag, samþykkjum að hann hafi
slíkt gildi. Talað er um tvenns konar gildi í sambandi við peninga: notagildi og
3 Witt 1998:486-487.
4 Haslanger 2000: 38.
5 Sjá Hindriks 2006 og Searle 1995 og 2007.