Hugur - 01.06.2011, Blaðsíða 47
HuGUR | 23. ÁR, 2011 | S. 45-56
Eyja Margrét Brynjarsdóttir
Að skoða náttúru til að
skoða náttúru
Hugsum okkur hlut, bara einhvern hlut. Spyrjum svo: „Hvað er það sem gerir
það að verkum að þessi hlutur er það sem hann er, en ekki eitthvað annað?“ Með
öðrum orðum getum við spurt: „Hverrar náttúru er þessi hlutur og hvað gerir
það að verkum að hann er þessarar náttúru?“ Þetta er ekki vísindaleg spurning og
hún ijallar ekki um orsakasamband; málið snýst ekki um hvernig hluturinn hafi
orðið til eða hvaða orsakir liggi því að baki að hann sé eins og hann er. Það sem
ég hef í huga er verufræðileg, frumspekileg spurning. Hvers vegna getum við sagt
að tiltekinn hlutur sé blýantur, en ekki til dæmis ijall? Það hlýtur að vera eitthvað
sem þessi hlutur hefur til að bera sem greinir blýanta frá þeim hlutum sem ekki
eru blýantar. Og hvað gerir það að verkum að við getum sagt að hann sé gulur en
ekki rauður og að hann sé aflangur en ekki hnöttóttur?
Svokallaðri tilraunaheimspeki (e. experimentalphilosophy) hefur vaxið fiskur um
hrygg á undanförnum árum en þó hefur hún verið umdeild. I tilraunaheimspeki
er empírískum aðferðum beitt til að skoða viðfangsefni sem samkvæmt heim-
spekihefðinni hafa verið hugleidd í hægindastólum, eða í það minnsta við skrif-
borð. Hin hefðbundna mynd af heimspeki er að þar komi aðferðir reynsluvís-
inda ekki við sögu heldur snúist heimspekin einvörðungu um að greina, lýsa og
rökstyðja út frá því sem hugarfylgsnin hafi að geyma. Rökstuðningur er yfirleitt
byggður á forsendum sem fundnar eru a priori, eða það er að minnsta kosti reynt.
I tilraunaheimspeki er hins vegar lögð áhersla á að skoða hugmyndir fólks um
viðfangsefnin eða viðbrögð þess gagnvart þeim. Tilraunaheimspekingar láta
fólk fylla út spurningalista, gera sálfræðitilraunir með viðbrögð og beita öðrum
reynsluvísindaaðferðum til að draga svo ályktanir um heimspekileg viðfangsefni
á borð við vitundina, frjálsan vilja og sannleikannd Þeir sem ganga hvað lengst
í að hampa tilraunaheimspekinni telja að hún eigi að koma í staðinn fyrir hefð-
bundnari heimspeki, að tími sé kominn til að gera heimspekina „vísindalegri“.
A hinum endanum eru þeir sem telja að empírískar aðferðir eigi aldrei erindi
1 Knobe og Nichols 20o8a og b.