Hugur - 01.06.2011, Page 74
72
Svavar Hrafn Svavarsson
Lög náttúrunnar
Skipan náttúrunnar, sem dyggðug manneskja fylgir, er iðulega skilin sem lög,
náttúrulög. Stóuspekin er að líkindum fyrsta heimspekikenningin sem setur fram
hugmyndina um náttúrulög.44 Með því að nefna skipan náttúrunnar lög leggja
þeir áherslu á að náttúran fyrirskipi breytni okkar, segi okkur hvað við eigum að
gera, nefnilega að velja þá hluti sem eru í samræmi við náttúruna og halda þeim
aðgreindum frá því sem er raunverulega gott, sem er skynsamlega valið sjálft. En
þótt þeir geti útskýrt á almennan hátt viðeigandi breytni (eða skyldur) og mistök-
in sem felast í kenndum oldcar, og þannig sett fram almennar reglur um hvað
skuli gera, forðast þeir að orða sértækar reglur. Þótt sumt sé ljóslega í samræmi við
náttúruna, er annað óljóst. Zenon var frægur fyrir víðsýni, rómverskir stóumenn
heldur þröngsýnni. Enn fremur er erfitt að alhæfa um val þeirra hluta sem eru í
samræmi við náttúruna, því valið veltur á aðstæðum, sem geta krafist fórna þess-
ara hluta, hvort heldur heilbrigðis eða lífsins sjálfs. En sú regla að fylga lögum
náttúrunnar er alger.
Náttúra stóumanna æpir á manneskjuna með þeim hætti sem heyrist varla ef sú
tvíhyggja efnis og anda sem drepið var á við upphaf þessarar greinar er samþyklct.
Náttúruhyggja þeirra er annars konar en tíðkast í nútímanum. Það er annað mál
hversu hlaðin siðferði þessi náttúra sé frá upphafi og hvaða ályktanir megi draga
af hleðslunni. Samkvæmt stóumönnum leitar manneskjan þeirra hluta sem eru í
samræmi við náttúruna en hafnar þeim sem eru það ekki. En hvernig ber mann-
eskjan kennsl á þá hluti sem eru í samræmi við náttúruna svo hún geti valið rétt?45
Stóísk siðfræði þarf að færa rök fyrir því hvort þessir hlutir stuðla að velgengni
hennar eða ekki, eða séu jafnvel hlutlausir. Eftir því sem viðföng valsins verða
sértækari virðist vera töluverður munur á viðhorfum stóumanna til þess hvað telj-
ist náttúrulegt, hvað ónáttúrulegt og hvað hlutlaust, allt eftir því hvaða skeiði og
samfélagi þeir tilheyra. Zenon og Krýsippos voru að sögn ekki sannfærðir um
að til dæmis sifjaspell væri ekki í samræmi við náttúruna. Stóísk siðfræði innan
Rómaveldis tekur hins vegar mjög mið af viðteknu siðferði. Hvort þessi breyti-
leiki skaði kenninguna er umdeilanlegt. Eftir stendur sú kennisetning stóumanna
að manneskjan sé gædd hvötum sem allar séu til hins góða komi ekkert í veg fyrir
það: náttúran leiðir manneskjuna til dyggðarinnar. Þessi kennisetning er bjartsýn,
enda krefst hún útskýringar á því hvers vegna að mati stóumannanna sjálfra fæstir
(ef nokkur) verða dyggðugir. Utskýring sem vísar aðeins til spillingar og mistaka
virðist duga skammt og reyndar benda til að eitthvað annað í náttúru mannsins
leiði eklci til góðs.
44 Sjá Striker 1996^: 209-220.
45 Annas (1993:137-39) fjallar um möguleg hringrök: siðfræðin vísar til náttúrunnar til að útskýra
hvernig skuli breyta, en náttúran sjálf er fyrirfram gædd boðkrafti sem er að einhverju leyti sið-
ferðilegur. Sjá einnig Striker 19963: 255-56.