Hugur - 01.06.2011, Qupperneq 53
Að skoða náttúru til að skoða náttúru
5i
uninni.9 En með hvaða hætti eru þeir háðir skynjun? Þetta er spurning sem er
mikilvæg þegar kemur að því að lýsa eðli eiginleikanna. Um fyrsta stigs eiginleik-
ana má setja fram ýmsar spurningar og ein þeirra er sú sem köiluð hefur verið
spurning Molyneux. Hún er kennd við William Molyneux sem sendi hana til
Locke undir lok 17. aldar. Locke ijallar svo um spurninguna í 2. útgáfu Ritgerð-
ar um mannlega skilningsgáfu.10 Molyneux spurði hvort maður sem fæðst hefði
blindur en fengi skyndilega sjónina myndi geta greint muninn á kúlu og ten-
ingi sem lægju fyrir framan hann án þess að nota snertiskynið. Þessa spurningu
má túlka á ýmsa vegu. Molyneux gæti hafa verið að setja fram hreina empíríska
spurningu um það hvernig sjónskynið verkaði hjá þeim sem skyndilega fá sjón-
ina. En það að hann skuli hafa sent spurninguna til heimspekings gefur til kynna
að hann hafi hugsað sér hana sem heimspekilega spurningu. Reyndar skiptir svo
sem ekki öllu máli hvernig Molyneux hugsaði sér spurninguna eða eftir hvers
konar svari hann var að fiska, heldur er aðalatriðið það að spurningin hefur orðið
ýmsum heimspekingum hugleikin og það má svo sannarlega finna út frá henni
ýmis verðug umhugsunarefni.
Spurning Molyneux getur til dæmis snúist um hugtökin sem við höfum um
lögun: Er hugtak okkar yfir sýnilegan tening hið sama og hugtakið yfir snertan-
legan tening? Og spurningin getur verið verufræðileg: Eru sýnileg teningslögun
og snertanleg teningslögun einn og sami eiginleikinn eða eru þetta tveir mismun-
andi eiginleikar?11
Þær vísindarannsóknir sem vert er að líta til í þessu sambandi eru ýmiss konar
sálfræðirannsóknir á skynjun fólks. Hvað varðar annars stigs eiginleikana er um
að ræða ótal rannsóknir á skynjun, til dæmis á litum. Rannsóknir tengdar rúm-
eiginleikum eru þó ekki síður áhugaverðar, sérstaklega þær sem varða samspil
margra skynfæra, eða það sem kallað er crossmodal eða multisensory á ensku. Ef
við höldum oldcur við rannsóknir á sambandi sjón- og snertiskyns, sem er jú það
sem beinast liggur við að ætla að tengist spurningu Molyneux, má til að mynda
nefna rannsóknir þar sem sjón og snertiskyn eru borin saman með tilliti til þess að
þekkja hluti eftir að þeim hefur verið snúið, heilarannsóknir sem bera saman það
ferli sem á sér stað við snertingu og ferlið sem tengist sjónskynjun, samanburð á
því þegar fólk sér og snertir þrívíð form og því þegar það lætur sjón og snertingu
vinna saman og samanburðarrannsókn á því hve vel fólk man lögun hluta eftir
því hvort það hefur séð þá eða snert.12 Hér spyrjum við aftur: Hvernig geta þessar
reynslubundnu rannsóknir sagt okkur eitthvað um tilvist og eðli eiginleikanna?
9 Margir hafa haldið þessu fram en eitt dæmi af fjölmörgum er McDowelI 1985.
10 Locke 1690/1975: II, ix, 8.
11 Umræðu um túlkunarmöguleika á spurningu Molyneux má m.a. finna í Hopkins 2005 og
MacDonald 2004.
12 Sjá Cattaneo og Vecchi 2008, Lacey, Campbell og Sathian 2007, Pettypiece, Goodale og Culham
2010, Phillips, Egan og Perry 2009 og Volcic 2010.