Tímarit Máls og menningar - 01.12.1956, Blaðsíða 125
GRÁR LEIKUR
berjunum. Berin voru stór, gljásvört
og feit, þau bráðnuðu á tungunni, en
herptu kokið saman. Maður fann,
hvernig kokið varð þrengra og
þrengra góða stund, og tungan varð
þurr og fyrirferðarmikil í munnin-
um — en héldi maður bara áfram og
æti og æti og léti ekki undan, þá varð
það að vísu verra og verra um stund,
en svo hætti það að versna. Á eftir var
maður svo samanherptur í hálsinum,
að maður gat varla dregið andann.
• •
Þeir söfnuðust saman inni við
stofninn, inni í miðju tré. Komu þang-
að einn og einn, með nokkru millibili.
Nú gátu þeir ekki komið meiru niður.
Gunnar kom síðastur. Hann hafði
klifrað meira en etið, þess vegna hélt
hann lengst út. Þeir höfðu haft veður
af honum. Hann hélt sig hæst uppi og
hætti sér lengra út en hinir, grannar
greinar svignuðu undir honum, hann
vatt sér af einni grein á aðra, líkt og
íkorni, hann spyrndi fæti í vinkilinn,
þar sem tvær greinar mættust, greip
um þá efri og teygði sig í láréttri stell-
ingu til þess að ná í gljásvartan berja-
klasa, sem hékk og dinglaði langt úti,
svimhátt frá jörðu. Hann náði ekki til
hans, en tók nú að sveifla sér fram og
aftur, einu sinni — og greinin sveifl-
aðist til baka, en ekki alveg nógu
langt, einu sinni til og af meira krafti
— nú náði hann til klasans, en um
leið brast uggvænlega í greininni, sem
hann stóð á. Þeir supu hveljur allir
saman. Svo kom hann niður til þeirra,
léttur og grannur, dálítið heitur til
augnanna eftir þetta glæfralega klif-
ur.
Staðurinn, þar sem þeir söfnuðust
saman, var eins og risavaxið hreiður,
eins konar hellir inni í trjákrónunni
miðri, samkomusalur frá náttúrunnar
hendi. Þarna mættust fjöldi greina, er
vaxið höfðu hver í sína átt, en allar
fléttuðust þær saman á ný áður en
þær greindust lengra út, þarna hafði
myndazt eins og dálítið hús hátt yfir
jörðu — hús með grænu, vatnsheldu
laufþaki og grænum veggjum og
fjölda svartra kvista til að sitja á. Þar
höfðu margir setið. Sjálfir höfðu þeir
verið þarna oft og mörgum sinnum,
nokkur ár í röð undanfarið, tvö þrjú
ár í minnsta lagi — og margir höfðu
verið þar á undan þeim. í skoru milli
tveggja kvista hafði verið skilin eftir
tóbakspípa, hún hafði legið þar líka í
fyrra. Hver skyldi nú hafa klifrað
hingað upp til þess að reykja? En ef
manni yrði nú óglatt og maður sleppti
sér og hrapaði niður? Enginn þeirra
hafði nokkru sinni borið við að
reykja.
Þarna sátu þeir, huldir greinum og
laufi, þeir gátu ekki séð himininn yfir
sér, ekki jörðina undir sér, ekki land-
ið umhverfis til neinnar áttar. Svona
hafði Robinson setið — eða hvað, sat
Robinson ekki svona?
Þeir létu hugann reika til fjarlægra
219