Tímarit Máls og menningar - 01.12.1995, Page 83
sem Bazin hafði vænst, flestir leikstjórar kusu (og kjósa enn) að halda sig við
„stjórnsama“ frásögn klippitækninnar. Fyrir því eru margar gildar ástæður.
I fyrsta lagi býður sá frásagnarmáti upp á margvíslega möguleika, bæði
listræna og tæknilega, sem nær útilokað er að ná fram með óslitnu mynd-
skeiði — og skiptir þar engu hversu „djúpur“ fókusinn er. Margir myndu
jafnframt halda því fram að klippingin leggi grunn að „myndmáli" kvik-
myndarinnar og það sé því hrein firra að hallmæla notkun hennar. í öðru
lagi er þessi frásagnarmáti orðinn að hefð sem á vissan hátt hefur „skilyrt“
væntingar áhorfenda (og kvikmyndaframleiðenda) eða, með öðrum orðum,
kennt þeim að „lesa“ kvikmyndir á ákveðinn hátt, þannig að samfelld
myndskeið verka framandi eða jafnvel „ólæsileg", að minnsta kosti til lengd-
ar. I þriðja lagi er það Ijóst að kvikmynd, þótt samsett sé úr sárafáum,
óslitnum myndskeiðum, getur alltaf „blekkt“ áhorfandann, ef það markmið
er á annað borð fyrir hendi. Að lokum má benda á það að framkvæmd
„raðskeiðsins“ krefst útsjónarsemi og stjórnunar engu síður en „niður-
klippt" sena og í sumum tilfellum jafnvel meiri, samanber hina mögnuðu
kóreógrafíu Orson Welles í upphafsskoti Touch ofEvil.20
Þrátt fyrir þessar mótbárur stendur þó sjálf grunnforsenda Bazin um
verufræði ljósmyndarinnar óhögguð að mínu mati. Vandinn liggur ekki í
forsendunni sem slíkri heldur í útfærslu hennar í kvikmyndum, þar sem ein
mynd tekur stöðugt við af annarri, hvort sem um raðskeið eða klippiseríu
er að ræða. Þá hljóta hreyfimyndir, sem ekki fá mikla umfjöllun hjá Bazin,
að teljast nákvæmlega jafn „filmískar“ og aðrar kvikmyndir, þótt myndefhi
þeirra sé sjaldnast sótt til hlutveruleikans. Kvikmyndin, ólíkt ljósmynd eða
málverki, er tímabundin list og sem slík hlýtur hún að lúta hrynrænum
lögmálum. Flæði myndanna og hrynjandi þess flæðis hafa því allt eins
mikilvæga stöðu og sjálfar myndirnar. Forsenda Bazin er e.t.v. nauðsynleg
til að skýra vissa séreiginleika kvikmyndarinnar en hún er ekki nægjanleg til
að skilgreina eðli miðilsins sem slíks. Þar hljóta fleiri þættir, fleiri sérkenni,
að koma við sögu. Þá má einnig velta því fyrir sér hvort ekki sé nauðsynlegt
að skilgreina nánar veruleikann sjálfan áður en mjög fastar skorður eru settar
á notkun þeirra „fingrafara“ hans sem kvikmyndin kann að vera. Hér koma
fantasían og hugarflugið að sjálfsögðu „inn í myndina“ en þessi hugsun
kallar einnig fram spurningar um skynjun okkar á veruleikanum og hvernig
kvikmyndir geta líkt eftir og miðlað þeirri skynjun, eða þá torveldað hana.
Tengslin sem þar má e.t.v. finna hljóta að gegna lykilhlutverki við að skilja
eðli kvikmyndarinnar sem slíkrar, og stöðu hennar gagnvart veruleikanum
í öllum hans fjölmörgu myndum.
TMM 1995:4
81