Tímarit Máls og menningar - 01.12.1995, Page 101
mátti oft greina að ekki er allt sem sýnist í þessum efnum. Til að mynda er
sagt frá því í lok myndarinnar að það hafí reynst þáttagerðarfólkinu mjög
erfitt að fá nýbúa til viðtals um aðstæður þess og viðhorf til samfélagsins. Sú
ákvörðun, að greina frá þessu í myndinni, er lofsverð og mjög mikilvæg, þar
sem hún afhjúpar misheppnaða tilraun til að gera mynd um innflytjendur
á íslandi. Þess í stað fengum við að sjá mynd með frásögnum af innflytjend-
um á íslandi. Þáttagerðarfólkinu er augljóslega mikill vandi á höndum þegar
fólk neitar að taka þátt í myndinni. Við slíkar aðstæður er kvikmyndagerð-
arfólki ögrað og hér reynir á þekkingu þess til að vinna úr aðstæðunum. Ég
tel að þáttagerðarfólk Nýbúa úr Austri hafi hins vegar brugðist skyldu sinni
í þessum efnum. í stað þess að velja þá leið að gera mynd um misheppnaða
tilraun þeirra til að gera myndina sem þeir ætluðu að gera í byrjun, þá halda
þeir í upphafleg markmið. Mynd um misheppnaða tilraun hefði sagt meira
um nýbúana, samband nýbúanna og íslendinga, og ekki síst sagt okkur meira
um það við hvað er verið að fást t.d. í menningar- og félagslegu tilliti.
Þáttagerðarfólkinu er hins vegar ekki alls varnað. í lok myndarinnar er
effirfarandi texta brugðið upp á skjáinn: ‘Tekið skal fram að ekki er alltaf
samband á milli þess sem fjallað er um í texta og þeirra kvenna sem hér hafa
birst myndir af.’ Hér birtast skýr skilaboð um að þáttagerðarfólkinu er
umhugað að vernda þátttakendur sína frá misskilningi. Þessi texti er hins
vegar áberandi vísbending um að þáttagerðarfólkið telji áhorfendur ekki
fullfæra um að draga slíkar ályktanir sjálfir.
Bandaríski kvikmyndafræðingurinn Bill Nichols hefur bent á lýðræðislegt
yfirbragð heimildarmynda sem notast við keðju af viðtölum. (1988:55) Með
þessari tækni má kynna margvísleg sjónarmið eins og var t.a.m. reynt í
nýlegri sjónvarpsmynd Vísindi á villigötum?(1995), en að sama skapi er þetta
vandmeðfarin aðferð. Gryfjan sem íslenskt fjölmiðlafólk fellur í í þessum
efnum er að í stað þess að kryfja málefni á þennan hátt, er eingöngu boðið
upp á kynningu sjónarmiða og er látið þar við sitja. Má sjálfsagt skýra þetta
með ýmsum hætti, en kannski einna helst með hlutlægnissjónarmiðum
fjölmiðlafólks. Það má hins vegar bæta því við að í ljósi reynslunnar hefur
íslensku fjölmiðlafólki ekki verið tekið neitt sérstaklega vel þegar mjög
ákveðinn broddur hefur verið í kvikmyndagerðinni. Hægt er að benda á
a.m.k. tvö slík dæmi, annars vegar Þjóð í hlekkjum hugarfarsins (1993) og
hins vegar Fiskur undir steini (1974). Seinni myndinni var ætlað að kanna
hvernig ákvæðum laga um jafnan aðgang allra íslendinga að listum og
menningu væri háttað úti á landsbyggðinni. Völdu kvikmyndagerðarmenn-
irnir Grindavík sem tökustað og verður ekki annað sagt en að myndin sé
ósköp sakleysisleg könnun. Viðbrögðin við myndinni urðu hins vegar mjög
TMM 1995:4
99