Uppeldi og menntun - 16.02.2007, Page 29
29
Uppeldi og menntun
16. árgangur 2. hefti, 2007
ANNA ÞÓRA BALDURSDÓTT IR
VALGERÐUR MAGNÚSDÓTTIR
Jákvætt starfsumhverfi kennara –
aukin vinnugleði
Greinin er önnur í röð þriggja greina um niðurstöður rannsóknar á starfsumhverfi kennara og
líðan í starfi. Byggt er á kenningum Leiter og Maslach (2000) um kulnun og vinnugleði sem
tvískauta vídd. Stuðst er við líkan þeirra fyrir úttektir á starfsumhverfi og spurningalista til að
leita þeirra þátta sem viðhalda vinnugleði og koma í veg fyrir kulnun.
Helstu niðurstöður eru þær að úttektarþættirnir spá misvel fyrir um kulnun og vinnugleði.
Kennurum finnst vinnuálag vera umtalsvert og meirihluta þeirra finnst skilgreindur vinnu-
tími ekki duga til að sinna starfinu. Daglegur undirbúningstími er mismikill, allt frá einni
upp í sjö klukkustundir, en algengast er að hann sé þrjár til fjórar klukkustundir. Um helmingi
svarenda líst illa á fastari vinnutíma í skólanum. Niðurstöður gefa vísbendingar um að góð
samskipti, virk umbun, hóflegt vinnuálag og samsvörun í gildismati skóla og kennara stuðli
að góðu starfsumhverfi.
Settar eru fram tillögur um hvernig niðurstöðurnar geti komið að gagni.
STARFSUMHVERFI
Þessi grein er önnur í röð þriggja greina um niðurstöður rannsóknar á starfsumhverfi
kennara og líðan þeirra í starfi sem höfundar gerðu árið 2005. Fyrsta greinin birtist í
tímaritinu Uppeldi og menntun, 16. árgangi, 1. hefti 2007.
Greinin fjallar um ákveðna þætti í tengslum starfsmanns og starfs og einnig eru
hugtökin kulnun og vinnugleði tengd við ákveðnar aðstæður í starfsumhverfinu.
Byggt er á líkani Leiter og Maslach (2000) um þætti í starfsumhverfi og stjórnun
vinnustaða. Hér er greint frá hluta af niðurstöðum rannsóknarinnar og skoðaðir sex
þættir í almennu starfsumhverfi og fimm þættir sem lúta að stjórnun. Sagt er frá að-
ferð rannsóknarinnar, söfnun og greiningu gagna. Þá er fjallað nánar um spurningar
rannsakenda sjálfra um vinnutíma. Að lokum er gerð grein fyrir nokkrum niðurstöð-
um og þær ræddar.
Skipulag starfsumhverfis hefur mikil áhrif á það hvernig starfsmenn geta sinnt
starfi sínu, samskipti þeirra í milli og viðhorf þeirra í garð vinnustaðarins (Leiter og
Maslach, 2000). Vinnustaðurinn þarf því að skapa starfsmönnum sínum gott umhverfi
til að þeim líði vel og geti sinnt verkefnum sínum eins og til er ætlast.