Uppeldi og menntun - 16.02.2007, Page 117
117
GUNNHILDUR ÓSKARSDÓTT IR
Hvað segja teikningar barna um
hugmyndir þeirra um líkamann?
Í þessari grein er fjallað um upplýsingar sem teikningar barna geta gefið um hugmyndir þeirra
um mannslíkamann og hvernig þær þróast á tveimur fyrstu skólaárunum. Umfjöllunin er
byggð á rannsókn þar sem kannaðar voru hugmyndir barna um líkamann áður en formleg
kennsla um líkamann hófst, þ.e. hugmyndir þeirra um útlit, staðsetningu og hlutverk beina og
líffæra og skoðað hvernig hugmyndir þeirra þróast og breytast við kennsluna og hvaða þættir
þar hafa mest áhrif. Hugmyndafræðilegur grunnur rannsóknarinnar á rætur í kenningum
hugsmíðahyggjunnar um nám barna þar sem gert er ráð fyrir að nemandinn sé virkur í eigin
námi og tekið sé mið af hugmyndum hans við skipulagningu kennslu.
Ein bekkjardeild í 1. bekk grunnskóla í Reykjavík var valin til þátttöku ásamt kennara bekkj-
arins og úrtaki foreldra. Í bekknum voru 19 nemendur fyrra árið, í 1. bekk, en 20 nemendur
seinna árið, í 2. bekk. Gögnum var safnað með þátttökuathugunum, teikningum, viðtölum og
greinandi verkefnum. Hér verður aðallega gerð grein fyrir niðurstöðum teikninganna. Börnin
voru beðin að teikna myndir á öllum stigum rannsóknarinnar, frá upphafi til enda. Öllum
teikningum hvers barns var safnað saman í möppu til greiningar og sérstakir kvarðar voru not-
aðir til að greina þær. Niðurstöður sýna meðal annars að þekking þeirra á útliti og staðsetningu
hjarta og heila var meiri og almennari en þekking á útliti og staðsetningu annarra líffæra, svo
sem maga og lungna. Niðurstöður sýna einnig að teikningar geta gefið mikilvægar upplýsingar
um hugmyndir barna og hvernig þær þróast og breytast. Þær geta einnig verið mikilvægar
þegar afla þarf upplýsinga um hugmyndir þögulla og feiminna barna sem forðast að taka þátt
í bekkjarumræðum eða tjá sig munnlega fyrir framan bekkjarfélagana. Hins vegar verður að
hafa í huga að teikningar einar og sér geta gefið takmarkaða mynd af hugmyndum barnanna.
INNGANGUR
Það hefur löngum þótt við hæfi í yngstu bekkjum grunnskólans að nemendur teikni
sér til ánægju og teikningar barna eru sjálfsagður hluti af námi þeirra. Þau teikna
gjarnan myndir í tengslum við reynslu sína, t.d. í kjölfar vettvangsferða, og túlka ljóð
og sögur með myndskreytingum og teikningum.
Teikningar barna hafa einnig m.a. verið notaðar til þess að öðlast innsýn í hug-
Uppeldi og menntun
16. árgangur 2. hefti, 2007