Uppeldi og menntun - 16.02.2007, Page 139
139
HRAFNHILDUR RAGNARSDÓTT IR
Þróun textagerðar frá
miðbernsku til fullorðinsára:
Lengd og tengingar setninga í frásögnum og álitsgerðum.1
Færni í textagerð í samfelldu máli er lykill að velgengni í skóla og þátttöku í þekkingarsam-
félagi nútímans. Markmið rannsóknarinnar sem fjallað er um í þessari grein er að auka þekk-
ingu á þróun máls og málnotkunar við gerð tveggja ólíkra textagerða (frásagna og álitsgerða)
frá miðbernsku til fullorðinsára. Áttatíu íslenskir einstaklingar úr fjórum aldurshópum (11,
14, 17 ára og fullorðnir) sömdu hver fjóra texta (tvo í mæltu máli, tvo ritaða) út frá sömu
kveikju (myndbandi án orða). Íslenska rannsóknin er jafnframt liður í sjö landa samanburð-
arrannsókn2. Fyrstu niðurstöður tölfræðilegrar greiningar á nokkrum vísbendingum (lengd
setninga, texta og málsgreina) studdu tilgátur um kerfisbundinn mun á frásögnum og álits-
gerðum og miklar framfarir í málnotkun af þessu tagi eftir miðbernsku. Marktækur munur var
á textum 11 ára barna og unglinga (14 og 17 ára) og enn meiri á unglingunum og fullorðnu
þátttakendunum sem sömdu margfalt lengri og flóknari texta en börn og unglingar. Þvert á
væntingar var hins vegar enginn munur á íslensku 8. bekkingunum (14 ára) og menntskæl-
ingum (17 ára) í þessum mælingum, en stærsta framfarastökkið var einmitt á því aldursbili í
flestum hinna landanna. Í umræðum um niðurstöður er m.a. fjallað um mismunandi áherslur
í efstu bekkjum grunnskóla á Íslandi samanborið við önnur lönd og hugsanlegan hlut þeirra í
þessum óvæntu niðurstöðum.
1 Rannsóknin Mál í notkun: tal- og ritmál barna, unglinga og fullorðinna nýtur styrks frá Rannsóknasjóði
Íslands, styrknúmer 060634022. Verkefnisstjóri er Hrafnhildur Ragnarsdóttir. Þakkir einnig til Máls
og menningar sem styrkti rannsóknina með bókargjöf til þátttakenda. Kærar þakkir til allra þeirra
sem lögðu hönd á plóginn, þ.á.m. Eddu Kjartansdóttur, Rannveigar Jóhannsdóttur og Þórunnar
Blöndal sem aðstoðuðu við gagnasöfnun; Helgu Jónsdóttur og Karenar Óskar Úlfarsdóttur, sem
skráðu og lykluðu; Ævars Þórólfssonar sem aðstoðaði við tölfræðilega úrvinnslu. Síðast en ekki
síst var hlutur þátttakenda bæði krefjandi og tímafrekur. Þeim er kærlega þakkað fyrir þeirra mikil-
væga framlag.
2 Fjölþjóðlega rannsóknin Developing literacy in different languages and different contexts var styrkt af
Spencer Foundation Major Grant for the Study of Developing Literacy.
Uppeldi og menntun
16. árgangur 2. hefti, 2007