Tímarit Máls og menningar - 01.12.1995, Page 36
útgáfur sé fjallað, nema ef vera skyldi í vandlætingartón. Líkt og í hefðbundn-
um þýðingarannsóknum er jafnan lagt mat á endurritanir með hliðsjón af
viðkomandi frumtexta; því meiri sem frávikin eru, þeim mun harðari dóm
fær verkið. Á síðustu áratugum má þó greina mikilsverða breytingu á þessu
sviði. Vaxandi hópur fræðimanna beggja vegna Atlantshafsins telur vænlegra
að greina þýðingar og aðrar endurritanir með hliðsjón af menningarheimi
þýðandans. Frá þeim sjónarhóli eru frávik frá frumtexta ekki tilefni einhliða
fordæmingar heldur vísbendingar um þær pólitísku og fagurfræðilegu for-
sendur sem ríkjandi eru í viðkomandi samfélagi.2
Þessi breyttu viðhorf til þýðinga hafa með öðrum orðum skerpt vitund
manna fyrir því hvernig einstakar þýðingar tengjast ýmsum öðrum textum
sem þýðanda eru kunnir (samtímabókmenntum, þjóðfélagsumræðu, o. s.
frv.). Slíkar vangaveltur hafa verið fýrirferðarmiklar um nokkurt skeið í
umfjöllun um samband og samræður frumsaminna skáldverka, en líkt og
Ástráður Eysteinsson rakti í grein hér í tímaritinu árið 1993 hefur hugtakið
textatengsl verið notað til að gera grein fyrir slíkum samræðum.3 Höfundur
hugtaksins er búlgarsk-franski fræðimaðurinn Julia Kristeva en samkvæmt
hennar skilningi á öll textasköpun sér stað á krossgötum tungumálsins og
þess rýmis þar sem merkingin er borin fram. Kristeva segir í þessu samhengi:
„sérhver texti er byggður upp sem mósaík tilvitnana, þ.e. sérhver texti er
upptaka og umbreyting annars texta“.4
Gildi textatengsla fýrir þýðingarumræðu er af fleiri en einum toga. í fyrsta
lagi má beita hugtakinu við greiningu á þeim vanda sem við blasir þegar
þýðandi hyggst varðveita merkingarþætti sem bundnir eru sköpunarstað og
-stund frumtextans, ekki síst tengslum hans við ýmsa texta sem lesendum
þýðingarinnar eru ókunnir. Vandinn virðist þeim mun meiri sem þýðingin
stendur fjær frumtextanum í menningarsögulegu tilliti. Undir þessum
kringumstæðum á þýðandinn um fjóra meginkosti að velja: Hann/hún getur
(a) sleppt torskildum merkingarþáttum frumtextans, (b) fellt skýringar inn
í meginmál þýðingarinnar, (c) látið neðanmálsgreinar fylgja textanum eða
(d) reynt að gera grein fyrir glötuðum textatengslum í formála, inngangi og
viðaukum.
Þýðendur íslendingasagna hafa iðulega lagt mesta áherslu á síðast nefnda
kostinn. Fjölmargar þýðingar sagnanna hefjast á greinargerð þar sem fjallað
er um uppbyggingu íslensks samfélags á þjóðveldisöld, efni Landnámu og
lögbóka, heiðinn átrúnað, norræna goðafræði, sem og tengsl þýddu sögunn-
ar við aðrar íslendingasögur. Oftar en ekki eru ennfremur birt með þýðing-
unni kort af í slandi og viðkomandi söguslóðum, enda er þekking á sögusviði
sagnanna meðal þeirra „texta“ sem eru erlendum lesendum síst tiltækir.5
Áðurnefnd þýðing Dasents á Njáls sögu gengur óvenju langt í þessa átt.
34
TMM 1995:4