Tímarit Máls og menningar - 01.12.1995, Page 76
Þorvarður Árnason
Augans snarpa hugsun
Hugleiðing um kvikuna í lifandi myndum
I
Rétt í það mund sem orð þessi rata á blað er „öld kvikmyndarinnar" á enda.
Kvikmyndin, sem löngum hefur verið nefnd listform tuttugustu aldarinnar,
verður hundrað ára gömul í lok þessa árs, nánar tiltekið á tuttugasta og
áttunda degi desembermánaðar. Þá verður þess jafnffamt skammt að bíða
að ný öld, og nýtt árþúsund, renni í hlað. Verður tuttugasta og fyrsta öldin
ef til vill fremur öld sýndarveruleikans eða öld hins gagnvirka sjónvarps? Er
kvikmyndin að renna skeið sitt á enda? Spái nú hver í spil sín eða bolla en
vissulega eru ýmis teikn á lofti um að framtíð kvikmyndarinnar í æ „raf-
magnaðri“ heimi — heimi margmiðlunar, stafrænna myndbanda og sýnd-
arveruleika — sé alls ekki sjálfgefin. Þannig er hreint ekki óhugsandi að
kvikmyndin eins og við þekkjum hana nái lítið meir en tíræðisaldri. Þótt hér
sé ekki ætlunin að spá fyrir um endalok kvikmyndarinnar þá tel ég hollt að
hafa í huga að tilvera hennar á nýju árþúsundi er engan veginn tryggð.
Þegar merkisafmæli fara í hönd freistast maður ósjálfrátt til að setja sig í
ögn „hátíðlegar“ stellingar gagnvart afmælisbarninu, horfa á það með
„sparisvipnum“ og velta vöngum yfir fortíð þess og sögu. Jafnframt reynir
maður óhjákvæmilega að ímynda sér í hvaða formi þróun þess, eða þroski,
gæti helst birst næstu árin. Á hugann leitar þá fyrst „spurning spurning-
anna“: Hvað gerir kvikmyndina merkilega? Sem fyrirbæri, listgrein, iðnvarn-
ing, eða hvernig sem fólk vill helst skilgreina hana. Spurningin er vitaskuld
stór og flókin en hún felur í sér margar smærri sem ef til vill eru aðeins
viðráðanlegri: I hverju er eðli kvikmyndarinnar fólgið? Hver eru sérkenni
hennar, hvað greinir hana frá öðrum listum? Hvort er hún fremur sjónlist
eða frásagnarlist? Hvernig er tengslum hennar við raunveruleikann, „lífið“,
helst háttað? Hvað merkir hugtakið „lifandi myndir“, er það kannski mark-
leysa? Eru kvikmyndir ef til vill alls ekkert merkilegar?
Þeir sem hafa illan bifur á hvers kyns „eðlis-“ eða „formhyggju“ ættu
trúlega ekki að lesa lengra því greinargerðin sem hér fer á eftir verður
óhjákvæmilega mjög í þeim anda. Hvað sem segja má um gildi og gagnsemi
74
TMM 1995:4