Saga - 2020, Blaðsíða 75
af málinu. Bøggild skrifaði Erik Arup prófessor, sem átti sæti í
dansk-íslensku nefndinni, bréf af þessu tilefni þar sem hann fór yfir
atburðarásina og benti á að litlu hefði munað að vopnaðir danskir
sjóliðar hefðu verið settir á land í Reykjavík. Þá gagnrýndi sendi-
herrann Broberg skipherra og sagði að skeyti hans til danska flotans
19. nóvember hefði einkennst af móðursýki. Brýnt væri að setja öll
dansk-íslensk málefni undir danska forsætisráðuneytið og tryggja
að dönsk stjórnvöld færu eftir ákvæðum sambandslaganna enda
væri mikilvægt að viðhalda hinum góðu samskiptum ríkjanna.108
Drengsmálið heyrði brátt sögunni til. Eftir að Ólafur var laus úr
fangelsi hóf hann baráttu fyrir því að fá Nathan aftur til Íslands.
Málið vakti nokkra athygli í Danmörku en dönsku blöðin höfðu
fylgst náið með aðgerðum yfirvalda í Reykjavík og komu drengsins
til Kaupmannahafnar.109 Allt kom þó fyrir ekki og svo fór að Jón
Magnússon forsætisráðherra hafnaði beiðni um dvalarleyfi til handa
Nathan með þeim rökum að engin trygging væri fyrir því að hann
hefði náð fullum bata.110 Nathan var fljótlega sendur til ættingja
sinna í Sviss en fékk síðar franskan ríkisborgararétt og lærði textíl-
skreytingar. Hann heimsótti Ísland á ný árið 1931 en lést á sóttar-
sæng í Frakklandi árið 1938.111 Ólafur og nokkrir liðsmenn hans
hlutu fangelsisdóma fyrir þátt sinn í drengsmálinu.112 Þeir voru hins
vegar náðaðir af Kristjáni X. árið 1922 að beiðni Sigurðar Eggerz,
þáverandi forsætisráðherra, til að lægja öldurnar í samfélaginu.113
„sveinn nokkur kom frá rússíá“ 73
108 RA. Udenrigsministeriet. J. E. Bøggild til Hr. Erik Arup, 23. janúar 1922.
109 BR. Einkaskjalasafn nr. 248, Hvíta stríðið. Pétur Pétursson þulur. Askja 5 og
6. Blaðaúrklippur: „Masse-Arrestationer i Reykjavik“, Nationaltidende; „Uro -
lig hederne i Reykjavik“, Politiken; „Drengen paa Island“, Arbejderbladet; „Den
Russiske Dreng rejst fra Reykjavik“, Politiken; „Da „Gullfoss“ kom fra Island
imorgens“, Berlinsketiderne; „Nathan Friedmann enkommen til Kobenhavn“,
Arbejderbladet. Af úrklippunum má ráða að þær birtust dagana 24. nóvember
til 8. desember 1921.
110 BR. Einkaskjalasafn nr. 248, Hvíta stríðið. Pétur Pétursson þulur. Askja 6. Jón
Magnússon til Sveins Björnssonar, 8. febrúar 1922.
111 Snorri G. Bergsson, Roðinn í austri, bls. 188.
112 Hæstaréttardómar. I. bindi 1920–1924 (Reykjavík: Hæstaréttarritari 1925), bls.
277–285. Gögn varðandi sakamálarannsókn og náðun yfir Ólafi Friðrikssyni
og fylgismönnum hans er að finna í ÞÍ. Stjórnarráð Íslands I. B/229. Sakamál.
Ólafur Friðriksson. Mótþrói við lögregluna. Friedmannsmálið. Hvíta stríðið.
113 Þór Whitehead, Sovét-Ísland, óskalandið, bls. 56.
Saga vor 2020.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 22.4.2020 14:44 Page 73