Saga - 2020, Blaðsíða 170
og þétt og stjórnvöld óttuðust að þekking á Vesturlöndum myndi snúa fólki
gegn sósíalismanum. Eins og Rósa bendir á var slíkur ótti dæmigerður fyrir
hugsunarhátt ráðandi hópa (bls. 120).
Óttinn við að fólk ánetjaðist neysluhyggju og kapítalískum hugsunar-
hætti birtist mjög sterkt innan hinnar róttæku sovéthollu vinstrihreyfingar
á þessum árum. Í samtölum íslenskra sósíalista við fulltrúa Sovétríkjanna
hér heima og á fundum í Moskvu, ekki síst Einars Olgeirssonar formanns
Sósíalistaflokksins, kemur til dæmis vel fram að hann og kannski fleiri úr
eldri kynslóð íslenskra sósíalista töldu sig þurfa stuðning frá kommúnista-
ríkjunum til að ala upp nýja kynslóð flokksmanna, fólk sem ekki væri veikt
fyrir smáborgaralegum viðhorfum og gildismati neysluhyggjunnar. Svar
Einars var að senda íslensk ungmenni til náms í Austur-Þýskalandi, Sovét -
ríkj unum og fleiri sósíalískum ríkjum. Hann hélt að slík dvöl væri líkleg til
að móta framtíðarleiðtoga flokksins á réttan hátt (sjá Jón Ólafsson, „De -
composing Capitalism. Socialists in Power, Iceland 1956–1958“. Tímarit um
félagsvísindi 1:1 (2007), bls. 18–30, hér bls. 21–24).
Sama hugsun fæddist austan járntjalds þar sem hugmyndin um að efna
til reglulegra hátíðahalda, heimsmóta æskunnar, braut upp hið staðnaða
áróðursmódel. Árið 1957 var slíkt mót haldið í Moskvu. Þúsundir erlendra
gesta streymdu til Sovétríkjanna og fengu fleiri tækifæri en áður höfðu gefist
til að sjá með eigin augum lífshætti og aðstæður í háborg sósíalismans. En
Sovétríkin voru í raun fullkomlega ófær um að nýta slíkt tækifæri sér til
framdráttar eða til að gera sovéskan lífsstíl aðlaðandi. Menningarleg áhrif
heimsmótsins, og um leið pólitísk, voru þó gríðarleg. Náin kynni af vestræn-
um hugsunarhætti í gegnum erlenda gesti gerðu marga af yngri kynslóðinni
næmari fyrir hinum raunverulega mun á vestri og austri. Rósa bendir á að
það hafi verið dæmigerð mistök sovéskra stjórnvalda að telja áhuga og
aðdáun á Vesturlöndum ávísun á andúð á eigin heimalandi og stjórnkerfi.
Engin bein tengsl virðist vera á milli þessa hjá hinum almenna borgara, sem
þó mátti óttast ofsóknir og jafnvel ákæru fyrir samskipti við útlendinga. Í
þessu skapaðist það sem Rósa kallar þversögn friðsamlegrar sambúðar:
Sovésk stjórnvöld reyndu í senn að stjórna ímynd Bandaríkjanna innan
Sovétríkjanna og auka tengsl við Bandaríkin á öllum sviðum (bls. 98–99).
Nikita Khrúsjov, helsti leiðtogi Sovétríkjanna frá 1953 til 1964, var lifandi
mynd þversagnarinnar. Sem forystumaður endurvakti Khrúsjov trú margra
á Sovétríkin. Ógnarverk Stalín-tímabilsins voru viðurkennd, slakað var á
hömlum skapandi starfs og stuðlað að þróun á mörgum sviðum iðnaðar,
tækni og landbúnaðar. En um leið þurftu Sovétríkin að standa vörð um
stöðu sína sem stórveldi á alþjóðlegum vettvangi og tryggja völd flokksins
heima fyrir. Umbætur voru því hálfkaraðar og mælskulist framtíðarinnar
tók völdin: Á fáeinum árum myndu Sovétríkin sigla fram úr Banda ríkjun -
um á öllum sviðum. Hápunkturinn var opinber heimsókn Khrúsjovs til
Bandaríkjanna sem gerði stjórnvöldum kleift að stilla sér upp jafnfætis
ritdómar168
Saga vor 2020.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 22.4.2020 14:44 Page 168