Saga - 2020, Blaðsíða 111
vandræðaunglingur, eða vandræðastúlka þar sem við á, til að undir-
strika að unglingarnir sem hér koma við sögu höfðu ekki endilega
komist í kast við hegningarlög. Sagnfræðingurinn Joan Sangster hef-
ur skilgreint hugtakið juvenile delinquent í bók sinni Girl Trouble, þar
sem hún fjallar um stúlkur sem hlutu þennan stimpil í Kanada á
tuttugustu öld. Sangster greinir frá því að tilgangurinn með hugtak-
inu hafi verið sá að skilgreina stöðu unglinga innan réttarkerfisins
en skilgreiningin hafi í raun skapað ákveðna tegund afbrota og af -
brota manna út frá óæskilegri hegðun ungmenna. Hugtakið á rætur
sínar að rekja til umbótasinna í málaflokknum um aldamótin 1900.
Það var og er menningarlega mótað og verður því til í ákveðnu valda -
samhengi sem endurspeglar hvað ráðandi öflum þykir vera ásættan -
leg hegðun, hvað telst til siðmenntaðrar og siðferðislega réttrar hegð -
unar. Það mótaðist líka af þáttum eins og kyni, stétt og kynþætti
þeirra ungmenna sem til umræðu voru.6
Hugtakið vandræðaunglingur hefur ekki einungis verið mótað
af lögum eða löggjafanum heldur einnig af sérfræðingum sem í
krafti þekkingar sinnar eða starfs eiga þátt í því hvernig réttarkerfið
tekur á málefnum ungmenna. Viðhorf þessara sérfræðinga eru ekki
síður kynjuð en viðhorf löggjafans eins og sjá má í rannsókn Lauru
S. Abrams og Lauru Curran þar sem þær rýna í það hvernig hin
nýja stétt félagsráðgjafa hafði áhrif á mótun hugmynda um vand -
ræða stúlkur í Bandaríkjunum um og eftir aldamótin 1900.7
Munurinn á vandræða- eða afbrotaunglingi og öðrum glæpa-
mönnum fólst ekki aðeins í aldri einstaklingsins heldur einnig í eðli
„afbrotanna“. Vandræðaunglingar voru ekki aðeins gerendur glæpa
heldur var siðferði þeirra haft til skoðunar og lögreglunni ætlað að
grípa inn í vegna meintra galla unglingsins á því sviði. Í þessum sið -
ferðisafskiptum birtist oft mjög skýrt hvernig kyn, ásamt kynþætti
og stétt, hafði áhrif. Í stuttu máli voru það oftast ungar stúlkur sem
voru hafðar undir eftirliti eða gripið var inn í þeirra líf vegna sið -
ferðis- eða kynferðismála.8
ástandsstúlkan sem vandræðaunglingur 109
6 Joan Sangster, Girl Trouble. Female Delinquency in English Canada (Ontario: Be -
tween the lines 2002), bls. 13–40.
7 Laura S. Abrams og Laura Curran, „Wayward Girls and Virtuous Women.
Social Workers and Female Juvenile Delinquency in the Progressive Era“,
AFFILIA 15:1 (2000), bls. 49–64, sjá einkum bls. 52–53. Sjá einnig Joan Sangster,
Girl Trouble, bls. 13–40.
8 Sangster, Girl Trouble, bls. 13–40.
Saga vor 2020.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 22.4.2020 14:44 Page 109