Uppeldi og menntun - 16.02.2007, Page 33
33
ANNA ÞÓRA BALDURSDÓTTIR, VALGERÐUR MAGNÚSDÓTTIR
og árekstra hlutverka hefur aftur á móti reynst vera óskýrara (Leiter og Maslach,
1999).
Laun, aðstaða og jákvæður samanburður við aðra eru meðal þess sem umbunar
starfsmönnum fyrir störf þeirra. Skortur á þessu hefur reynst valda kulnun (Leiter og
Maslach, 1999).
Þátturinn starfssamfélag er flókinn og rannsóknir á kulnun hafa einkum beinst að
stuðningi yfirmanna og samstarfsmanna. Skortur á stuðningi yfirmanna hefur reynst
tengjast tilfinningaþroti, sem staðfestir mikilvægi slíks stuðnings. Stuðningur sam-
starfsmanna er tengdari framlagi eða færni starfsmannsins og mati samstarfsmanna
hans á því (Leiter og Maslach, 1999). Hjá Schaufeli og Enzmann (1998) kemur einnig
fram svipuð skoðun á samstarfi, og að stuðningur og endurgjöf frá starfssamfélaginu
hafi áhrif á streitu og kulnun.
Lítil sanngirni á vinnustöðum getur valdið streitu, og sá þáttur tengist einnig sjálf-
ræði í starfi og vinnuálagi (Sutinen, Kivimäki, Elovainio og Virtanen, 2002).
Gildismat vinnustaða skiptir starfsmenn miklu máli, sérstaklega ef þeir hafa háleitar
hugsjónir. Ósamræmi milli gildismats þeirra og vinnustaðarins eykur líkur á kulnun,
einkum í upphafi starfsferils (Maslach og Jackson, 1984). Mikilvægi starfsins fyrir
starfsmenn tengist öllum þáttum kulnunar (Leiter og Maslach, 1999).
Góð verkstjórn stuðlar að starfsþróun kennara og eykur samstöðu hópsins (Ser-
giovanni, 2001). Samskipti og þar með upplýsingaflæði eru grundvallarþættir í sam-
starfi fólks og segja má að samskipti séu sá þáttur sem heldur allri starfseminni saman
(Maranzo, Walters og McNulty, 2005; Scribner, Cockrell, Cockrell og Valentine, 1999).
Þróun verður ekki án breytinga og þar hafa stjórnendur sem leiðtogar mest áhrif
(Fullan, 1993; Maranzo, Waters and McNulty, 2005).
AÐFERÐ
Í þessum hluta rannsóknarinnar er leitast við að svara rannsóknarspurningunni um
það hvaða þættir í starfsumhverfi hafi áhrif á kulnun og vinnugleði. Gerð er grein fyrir
svörum kennara við spurningum Leiter og Maslach um sex þætti í starfsumhverfinu
og fimm þætti sem lúta að stjórnun og þau tengd við hvern þátt kulnunar fyrir sig.
Spurningalistinn sem notaður var í þessum hluta rannsóknarinnar byggist á þremur
til sex spurningum um hvern þátt. Svarmöguleikar voru fimm, þ.e. mjög sammála,
sammála, í vafa, ósammála og mjög ósammála. Undantekning frá þessu er liðurinn
um breytingar. Þar eru tíu spurningar og eftirfarandi svarmöguleikar: miklu betri,
betri, óbreytt, verri og miklu verri.
Í umræðu um starf kennara og í viðræðum við þá kemur iðulega fram að þeir telja
sig búa við mikið vinnuálag og nokkur hluti þátttakenda í þessari rannsókn hefur
hugleitt að hætta kennslu vegna vinnuálags (Anna Þóra Baldursdóttir og Valgerður
Magnúsdóttir, 2007). Það sama kom fram í rannsókn Önnu Þóru Baldursdóttur (2000).
Rannsóknir sýna að vinnuálag hefur áhrif á kulnun (Schaufeli, 2004; Burke og Green-
glass, 1995). Rannsakendum lék því forvitni á að skoða sem best viðhorf kennara til
vinnuálags síns og vinnutíma. Lagðar voru fyrir nokkrar spurningar um þá þætti,