Uppeldi og menntun - 16.02.2007, Page 140
140
ÞRÓUN TEXTAGERÐAR FRÁ M IÐBERNSKU T I L FU L LORÐ INSÁRA
INNGANGUR
Leikmanni kann að virðast sem börn hafi náð fullum málþroska um 10 ára aldur. Í
vissum skilningi er það rétt: Þá þegar hafa börn náð valdi á langflestum beygingar- og
setningargerðum móðurmálsins og öðlast heilmikinn orðaforða. En eitt er að kunna
skil á orðum og málfræði, annað að ná valdi á að beita þeirri þekkingu markvisst í
samfelldri orðræðu þar sem tengja þarf saman setningar í langar máls- og efnisgreinar
þannig að þær myndi eina órofa heild. Að rekja atburðarás í frásögn eða setja fram
skilmerkilega álitsgerð um menn og málefni eru dæmi um málnotkun af þessu tagi.
Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar Mál í notkun: tal- og ritmál barna, unglinga og full-
orðinna, sem kynnt verður í þessari grein, staðfesta að á þessu sviði eiga börn eftir
að bæta miklu við sig á unglingsárunum og raunar fram á fullorðinsár, enda er
þróun málnotkunar af þessu tagi komin undir fjölda annarra breyta, ekki síst vits-
munaþroska og ýmsum félagslegum og menningarlegum þáttum, sem í nútímanum
tengjast einkum (lang)skólagöngu og menntun. Fyrri rannsóknir greinarhöfundar á
frásagnarhæfni barna á aldrinum þriggja til níu ára og samanburðarhópi fullorðinna
(sjá m.a. Hrafnhildur Ragnarsdóttir, 1992, 2004) sýna að níu ára hafa íslensk börn náð
góðum tökum á sögubyggingu og samfellu í frásögn, en jafnframt að á þeim aldri er
enn langt í land að börn hafi náð færni fullorðinna í orðræðu af þessu tagi (Hrafnhildur
Ragnarsdóttir, 1992; Hrafnhildur Ragnarsdóttir og Strömqvist 2004). Niðurstöður
erlendra rannsókna styðja þessar niðurstöður (sjá t.d. Berman og Slobin, 1994 og
yfirlit í Hrafnhildur Ragnarsdóttir, 2004). Mun minna er vitað um þróun máls og mál-
notkunar í samfelldu máli eftir níu til tíu ára aldur, en erlendar rannsóknir benda
þó til að áfram verði umtalsverð þróun á unglingsárum og jafnvel lengur. Fjöldi og
lengd efnisþátta í frásögnum eykst jafnt og þétt og sögumenn leggja til ítarlegri bak-
grunnsupplýsingar eftir því sem þeir verða eldri. Þeir fjalla einnig meira um tilfinn-
ingar sögupersóna, hugarástand og áform (sjá yfirlit í Nippold, 1998, 2004) og notkun
sjaldgæfra málfræði- og setningarformgerða eykst (Chomsky, 1969). Allt leiðir þetta til
þess að frásagnir og aðrir textar lengjast, hlutfall undirskipaðra aukasetninga hækkar
og textasamloðun3 styrkist (sjá yfirlit í Nippold 1998; Scott, 1988, 2004; Verhoeven,
o.fl., 2002; Berman og Nir-Sagiv, 2007).
Lítið sem ekkert hefur verið birt af niðurstöðum íslenskra rannsókna á málþróun
á unglingsárunum, en í þessari grein verður kynnt rannsókn sem ætlað er að auka
þekkingu á þessu sviði. Rannsóknin beinist að fjórum aldursflokkum/skólastigum: 11
ára börnum í 5. bekk og 14 ára unglingum í 8. bekk grunnskóla; 17 ára menntskæling-
um í lok fyrsta námsárs og fullorðnum (aldur 26–40 ára) sem lokið hafa háskólaprófi.
Meginmarkmið hennar er að kanna hvernig – og hversu lengi – málnotkun við gerð
tveggja algengra orðræðutegunda, frásagna og álitsgerða, þróast eftir að eiginlegu
máltökuskeiði lýkur, bæði í tal- og ritmáli.
Íslenska rannsóknin er jafnframt liður í sjö landa samstarfsverkefni, Developing
Literacy in Different Languages and Different Contexts, undir stjórn dr. Ruth Berman,
prófessors í Tel Aviv háskóla. Rannsóknarsnið var það sama í öllum löndunum og
3 „Með samloðun er átt við það einkenni orðræðu að einingarnar sem hún er gerð úr tengjast hver
annarri svo úr verður heild.“ (Þórunn Blöndal, 2005, bls. 62.)