Uppeldi og menntun - 16.02.2007, Page 189
189
Uppeldi og menntun
16. árgangur 2. hefti, 2007
ELNA KATRÍN JÓNSDÓTTIR
Kennaramenntun í allra þágu
Í skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til Evrópuráðsins og Evrópu-
þingsins frá ágúst síðastliðnum, Improving the Quality of Teacher Education, er fjallað um
það hvernig kennarar gegni afgerandi og mikilvægu hlutverki við að hjálpa fólki til
að þroska og nýta til fulls hæfileika sína og við að afla sér þeirrar þekkingar og færni
sem einstaklingar þurfa að búa yfir jafnt í daglegu lífi sem á vinnumarkaði. Kennarar
séu miðlarar milli heims í örri þróun og einstaklinga sem eru á leið út í lífið. Kenn-
arastarfið sé að verða æ flóknara, kröfur til kennara séu að aukast og starfsumhverfi
þeirra verði æ meira krefjandi. Gæði kennslu eru í skýrslunni talin meðal ráðandi
þátta um það hvort löndum Evrópusambandsins tekst að auka samkeppnishæfni
sína á heimsvísu. Rannsóknir sýni að gæði kennslu tengist með beinum og jákvæðum
hætti námsárangri nemenda – sé reyndar mikilvægastur þeirra þátta í starfinu innan
skólans sem skýri árangur eða frammistöðu nemenda og til dæmis mun mikilvægari
en áhrif námsskipulags, skólastjórnunar eða fjárhagslegra skilyrða. Það er því talið
mikilvægt að auka gæði kennaramenntunar beinlínis til að auka líkur á að ná mark-
miðum samevrópskra menntaáætlana á borð við Lissabonáætlunina frá árinu 2000
þar sem árangur hefur ekki verið sem skyldi en meðal markmiða hennar er að færri
flosni upp úr skóla án grunnskólaprófs eða frekari menntunar, að fjölga útskrifuðum
úr framhaldsskólum og að ólæsum eða treglæsum fimmtán ára unglingum fækki.
Kennarastarfið í deiglu breytinga
En hvernig eru þá þessar breyttu og auknu kröfur til kennara og kennarastarfsins?
Kennarar þurfa eftir sem áður að vera vel menntaðir í sínum fræðigreinum eða á sínum
kennslusviðum, fylgjast með í faginu, aðlaga upprunalega þekkingu sína breytingum
og nýjungum innan fræðigreina og sviða og bæta við menntun sína bæði með form-
legu og óformlegu námi. En kennarar gegna nú líka hlutverki við að hjálpa nemend-
um til sjálfstæðis í námi og vinnubrögðum við þekkingar- og upplýsingaleit fremur
en að tileinka sér ákveðinn þekkingarforða. Kennarar eru í auknum mæli skipuleggj-
endur, verkstjórar og miðlarar í fjölbreytilegri samvinnu við nemendur og samkenn-
ara, þurfa að bregðast við kröfum samtímans um einstaklingsmiðun í námi nemenda,
meiri kröfum um fjölbreytilegar kennsluaðferðir og nálgun við viðfangsefni, notkun
nýrrar og síbreytilegrar tækni við öflun og nýtingu þekkingar og upplýsinga. Þátttaka
kennara í stefnumótun, stjórnun og jafnvel stjórnsýslu er víða að aukast vegna þróun-
ar í átt til aukins sjálfstæðis skóla og vegna breyttra viðhorfa um þátttöku starfsmanna
í slíkum störfum og hugmynda um valddreifingu. Enn má nefna til sögunnar sjálfs-
mat eða innra mat skóla sem er tiltölulega nýr þáttur í starfi kennara, áætlanagerð,
samstarf við aðra sérfræðinga innan og utan skóla og kerfisbundið, rafrænt bókhald