Hugur - 01.06.2011, Side 48
46
Eyja Margrét Brynjarsdóttir
í heimspeki og hafna þannig allri tilraunaheimspeki eða tilburðum í þá áttina,
jafnvel þeim sem ganga skemra, og telja að heimspeki skuh öðru fremur felast í
hugtakagreiningu.2
Eg hef verið að velta fyrir mér eðli tveggja ólíkra fyrirbæra. Annars vegar eru
það peningar. Hvað er það sem gerir eitthvað að peningum og í hverju felst það
gildi sem peningar hafa? Hins vegar er um að ræða ýmsa eiginleika sem eru með
einum eða öðrum hætti skynjanlegir, bæði svokallaða skynræna eiginleika, eins og
liti, bragð og hljóð, og rúmeiginleika eins og staðsetningu, stærð og lögun. Til að
verða einhverju nær um þetta eðli beiti ég ýmsum greiningar- og hugleiðingar-
aðferðum sem eru almennt viðurkenndar heimspekilegar aðferðir. En að auki lít
ég til empírískra rannsókna. I empírískum rannsóknum er líka fengist við náttúru,
en það er í allt öðrum skilningi þess orðs en þegar eðlið er kallað náttúra. Þar er
náttúran það sem náttúruvísindin skoða með reynsluna sér til halds og trausts.
Það verður ekki beint sagt að ég leggi stund á tilraunaheimspeki þar sem engar
tilraunir fara fram á mínum vegum. En notkun mín á niðurstöðum úr empírísk-
um rannsóknum vekur upp svipaðar spurningar og tilraunaheimspekin: Hvernig
getur það verið réttlætanlegt að notast við empírísk, eða reynslubundin, gögn til
að draga ályktanir um það sem samkvæmt skilgreiningu verður ekld fundið með
reynslu? Hugmyndin er jú sú að vettvangur frumspekinnar, og þar með verufræð-
innar, sé annars staðar en þar sem reynslan getur leitt okkur. Og það eðli sem er
verið að skoða heyrir undir verufræði.
Til að réttlæta notkun mína á empírískum gögnum í frumspeki ætla ég að
lýsa þessum tveimur viðfangsefnum mínum betur og skýra hvernig megi nálgast
hvort um sig. Ég mun færa rök fyrir því að notkun empírískra gagna sé í sumum
tilfellum réttlætanleg í frumspeki en að það krefyst ákveðinnar sýnar á viðfangs-
efnið. Sem sagt tel ég að einhvers konar tilraunaheimspeki geti verið gagnleg í
frumspeki en það þýðir ekki að ég telji að öllum frumspekilegum spurningum
verði svarað með sálfræðitilraunum. Sum frumspekileg viðfangsefni verða best
skoðuð úr hægindastólnum eftir sem áður.
Náttúra og eðli
Þær spurningar sem ég hef verið að velta fyrir mér snúast um það sem kalla má
verufræðilegt eðli. Verufræðilegt eðli hlutar segir til um hvað hluturinn er. Hvaða
eiginleika þarf hann að hafa til að bera til að vera sá hlutur sem hann er? Hvernig
þarf hann að vera til að geta talist hlutur af þeirri gerð sem hann er af en ekki
hlutur af einhverri annarri gerð?
Hér gef ég mér ákveðnar forsendur sem deila má um og vera má að ástæða sé
til að rökstyðja þær sérstaklega. Slíkur rökstuðningur verður ekki settur fram í
neinum smáatriðum að þessu sinni en til að lesandanum sé ljóst út frá hverju er
gengið er rétt að ég greini frá þeim forsendum sem þessi skrif mín miðast við: Ég
geri ráð fyrir að maðurinn sé hluti af náttúrunni, að minnsta kosti að nægilega
2 Sjá umræður í Braddon-Mitchell og Nola 2009.