Helgafell - 01.09.1944, Blaðsíða 36
Og hversu dapur, dökka Lipurtá,
hver dagur heíði reynzt án glettni þinnar
og brosa þinna, er brutust dýpra og innar
en beiskja æskumanns og harmar ná.
Við leiki okkar, ærsl og gamanmál
í ævintýrum, ljóðum, skýjaborgum,
eg gleymdi öllu, sulti, þreytu, sorgum,
en sveif með þér um flugstig brött og hál.
Með þér var líka, Glóbrá, undragott.
Þar greip mig oft svo djúpur, helgur friður,
sem gaspur okkar, glettur, ærsl og kliður
við göfgi og fegurð væri hróp og spott.
Þitt hæga fas, þín hljóða, prúða ró,
þitt hlýja bros, þín varma raddarmildi
í orðalausri ástúð nam og skildi
hvar angur duldist, kvöl í hjarta bjó.
Eg minnist vordags. Viðey! sundin blá!
Og vökunótt með söng og dans að baki.
En hátt í lofti blik af vængjablaki,
og báðar þið mér ennþá glaðar hjá.
Eg kvaadi í huga himin, sæ og fjöll,
í hjartans leynum fundum við og skildum,
að framar ei, hvað feginn sem við vildum,
við fengjum svona að vera saman öll.
Svo liðu árin, áður en varði þrjú
í önn og námi, förum, vinakynning.
I undraskini skein mér ykkar minning,
þótt skildi týndur vegur, hrunin brú.
Með ljósa daga, er vor sveif norður um ver
þá voru engar meyjar heitar þráðar.
Mig dreymdi að eiga og elska ykkur báðar
að eilífu, — en fyrst og síðast hér.