Saga - 2020, Page 132
voru út úr bænum. 101 mál af 113 hafði skýrar málalyktir eða 89%
málanna. Með skýrum málalyktum er átt við að í málsgögnum sé
ýmist að finna úrskurð ungmennadómstólsins eða heimildir um að
einhverjar ráðstafanir hafi verið gerðar vegna stúlkunnar án úr -
skurð ar dómsins.
Stúlkurnar sem ungmennaeftirlitið hafði afskipti af voru ung-
lingsstúlkur á aldrinum 13–18 ára. Flestar höfðu lokið barnaskóla-
námi, enda skyldunáminu lokið á 14. ári á þessum tíma, og höfðu
ekki sótt sér meiri menntun, þær voru ýmist í vist, í vinnu á veit-
ingahúsum eða í einhvers konar verksmiðjuvinnu. Vert er að vekja
hér athygli á því að stúlkurnar sem um ræðir voru á vissan hátt á
mörkum þess að vera börn eða ungmenni og fullorðnir einstak -
lingar. Þær voru ungar að árum, flestar ennþá börn í nútíma skiln-
ingi, en unnu fyrir sér. Þeim var ætlað að bera fjárhagslega ábyrgð á
sjálfum sér en á sama tíma voru þær settar undir eftirlit á þeim for-
sendum að þær hefðu ekki nægan þroska til að stjórna samskiptum
sínum við karlmenn, þar með talið kynlífi sínu. Slík viðhorf til
stúlkna af verkamannastétt eða úr fátækari lögum samfélagsins hafa
einnig birst í erlendum rannsóknum eins og fram hefur komið.
Hernámið á Íslandi jók tækifæri kvenna og stúlkna til atvinnu og
til þess að þéna umtalsverða peninga en störf þeirra fyrir herinn
þóttu tortryggileg og fljótlega var farið að ræða um þau sem þátt í
spillingu þjóðarinnar.62 Stúlkurnar sem komu til kasta ungmenna-
eftirlitsins höfðu oft lítið bakland í borginni, töluverður fjöldi þeirra
var ættaður utan af landi, nokkrar þeirra voru í fóstri og þó nokkuð
margar ólust upp við erfiðar aðstæður svo sem fátækt og/eða
ofbeldi á heimilinu auk þess að það kom fyrir að stúlkurnar höfðu
komið við sögu hjá barnaverndarnefnd áður en afskipti af þeim hóf-
ust vegna ástandsins.63
Einnig voru þess dæmi að stúlkur segðu frá misnotkun í æsku
eða að þeim hefði verið nauðgað, ýmist af íslenskum körlum eða
jafnvel hermönnum sem þær voru sakaðar um að vera í tygjum við.
Tæp 10% þeirra 113 mála sem geymd eru í skjalasafni Sakadóms
Reykjavíkur geyma einhvern vitnisburð um kynferðisofbeldi. Það
er hins vegar ekki ólíklegt að raunverulegt hlutfall þeirra sem beittar
voru ofbeldi hafi verið mun hærra.
agnes jónasdóttir130
62 Herdís Helgadóttir, Úr fjötrum. Íslenskar konur og erlendur her (Reykjavík: Mál
og menning 2001), bls. 119–121, 125.
63 ÞÍ. Sakadómur Reykjavíkur. FA9/1–FA9/6.
Saga vor 2020.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 22.4.2020 14:44 Page 130