Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Qupperneq 11
MARTEINN SINDRI, STEINAR ÖRN, GUÐRÚN OG SIGRÚN MARGRÉT
14
út frá bókmenntum rómantíska tímabilsins, kvikmyndum og sálgreiningu.
Einnig ritar Benedikt ítarlegan formála um Kittler, hugmyndir hans og
fræðilegt samhengi verka hans. Það er eini inngangurinn sem birtist sérstak-
lega með þýðingu í þessu hefti. Ástæðan fyrir því er sú að á meðan aðrir höf-
undar þýddra greina í heftinu eru vel þekktir hér á landi þá hafa verk Kittlers
hingað til legið óbætt hjá garði.
Trúmál voru Freud sérstaklega hugleikin og fjallaði hann um uppruna
og eðli trúarbragða og trúarkenndar, hið heilaga og hið bannhelga, meðal
annars í bókunum Tótem og tabú, Móse og eingyðistrúin, Blekking trúarinnar og
Undir oki siðmenningar.25 Sigurjón Björnsson hefur dregið fjögur meginstef í
skrifum Freuds um trúmál saman á eftirfarandi hátt:
(1) Trúarbrögð eru hugarfóstur mannsins, sprottin úr sálarlífi hans
af þörf fyrir skýringu á veröld og mannlífi. (2) Trúarbrögð eru jafn-
gildi taugaveiklunar hjá einstaklingum og eru jafn sjúkleg og þar.
(3) Trúariðkun er rekin áfram af sektarkennd. (4) Trúin á rætur í
bernsku manns og táknar upphafið samband við föður.26
Kenningar Freuds um trúarbrögðin hafa mátt sæta margskonar gagnrýni
og Sigurjón bendir einmitt á að þær geti „ekkert sagt um trúarlegan raun-
veruleika“ en að þær megi nota til að skilja „hvernig einstaklingurinn með-
höndlar hann“.27 Þannig hefur sálgreiningin verið notuð innan trúarbragð-
anna sjálfra til að greina meðal annars heilbrigði trúarlífsins. Þann þráð er
að finna í grein Ann Belford Ulanov um ótta kristinna einstaklinga og kirkj-
unnar við sálina sem hér birtist í þýðingu Hauks Inga Jónassonar. Ulanov
er bandarískur fræðimaður og sálgreinir og tilheyrir raunar fremur þeirri
hefð sem runnin er undan rifjum Carls Gustavs Jung. Í heftinu er sjónum
einnig beint að öðru rannsóknarefni Jungs, dularsálfræði (e. parapsycology)
25 Í verkunum beinir Freud sjónum meðal annars að því hvernig hin löghelgu boð
og bönn samfélagsins (yfirsjálfið í menningunni) gera það að verkum að við erum
dæmd til að lifa undir oki siðmenningarinnar. Ófeigur Sigurðsson hefur fjallað um
gegnumbrot (e. transgression) þeirra marka sem samfélagið og trúarbrögðin setja
manninum í grein um Georges Bataille, „Guðdómurinn er dýr. Rabbað um Georges
Bataille og nokkur hugtök“, Skírnir vor/2014, bls. 144–159.
26 Sigurjón Björnsson, „Sigmund Freud og trúarlífið“, Ritið 2/2003, bls. 73−91, hér
bls. 79. Sjá einnig Sigurjón Björnsson, „Freud og syndin“, Glíman 3/2006, bls. 219–
227.
27 Sigurjón Björnsson, „Inngangur“, Sigmund Freud, Undir oki siðmenningar, Reykja-
vík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1990, bls. 5–12, hér bls. 11. Sjá einnig Vilhjálmur
Árnason, „Heil eða óheil trú“, Rabbað um veðrið og fleiri heimspekileg hugtök, Reykja-
vík: Heimspekistofnun og Háskólaútgáfan, 2015, bls. 83–86.