Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Blaðsíða 45
BJÖRn ÞORSTeInSSOn
48
„Af ávexti trésins […] megið þið ekki eta“: angistarfullur og fá-
fróður skilur Adam þessi orð á þá lund að þau feli í sér bann. en um
hvað snýst málið? Það snýst um ávöxt sem valda mun Adam eitrun
ef hann borðar hann. Þetta er dæmi um samfund tveggja líkama
sem eru þannig úr garði gerðir að kennisambönd þeirra renna ekki
saman: ávöxturinn mun valda eituráhrifum, það er að segja, hann
mun skilyrða hina ýmsu líkamshluta Adams (og jafnhliða mun hug-
myndin um ávöxtinn skilyrða sálarhluta hans) á þann hátt að þeir
mynda ný sambönd sem stangast á við eðli hans. Með því að Adam er
fáfróður um orsakir heldur hann að Guð sé að banna honum eitt-
hvað af siðferðilegum ástæðum, en raunin er sú að Guð er aðeins
að gera honum ljósar náttúrulegar afleiðingar þess að leggja sér
ávöxtinn til munns.32
Með öðrum orðum: það sem Adam túlkar sem bann, að það að borða eplið
sé illt, það er siðferðilega rangt, er í reynd vinsamleg og hagnýt ábending sem
snýst um að það sé slæmt fyrir hann að borða eplið, það sé eitrað eða að
minnsta kosti skemmt og muni draga úr honum mátt. Af fáfræði Adams um
orsakir vex smám saman upp heilt kerfi af boðum og bönnum sem eiga sér í
reynd engar skýringar aðrar en innantómt „af því bara“; „þetta má ekki af því
að það er illt“ – og af hverju er það illt? „Af því að það má ekki.“ Úr verður
ástand sem verður gróðrarstía fyrir það sem Spinoza kallaði einu nafni trega-
fullar kenndir og hann barðist gegn af lífs og sálar kröftum. Menn sem eru
undirlagðir af slíkum kenndum eru ekki líklegir til stórræða; þvert á móti
hneigjast þeir til lítillætis og undirlægjuháttar sem ýtir undir og laðar að sér
aðra manngerð, nefnilega harðstjórann. Þriðja manngerðin fylgir þá með í
kaupbæti – presturinn, sem tekur að sér það hlutskipti að vera „fullur trega
yfir hlutskipti mannanna og yfir því sem á manninn er lagt almennt talað“.33
Með þessari vanheilögu þrenningu er kominn grunnurinn að þjóðskipulagi
sem er einum of kunnuglegt og Spinoza lýsir með sláandi orðalagi: „Stærsta
leyndarmál einveldisstjórnar, og dýpsta hagsmunamál hennar, er að blekkja
þegnana með því að klæða í dulargervi, og kalla trúarbrögð, óttann sem
ætlunin er að halda þeim í; og tilgangurinn er sá að fá þá til að berjast fyrir
þrældómi sínum líkt og sæluvist þeirra væri í húfi“.34
32 Sama rit, bls. 174.
33 Sama rit, bls. 176.
34 Spinoza, Tractatus theologico-politicus (Ritgerð um guðfræði og stjórnmál, 1670), formáli;
hér vitnað eftir Gilles Deleuze, „Hvernig Siðfræðin greinir sig frá hvers kyns sið-