Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Blaðsíða 14
ARFLEIFð FREUDS
17
ímyndaða) og hins vegar í gegnum frumhátt aðgreiningar (hið táknræna)
eða tungumálið. Í ritgerð sinni „Spegilstigið“ ræðir Lacan ferlið sem hefst
þegar barnið meðtekur heiminn.32 Áður en barnið kemst á spegilstigið er
það aðeins „líkami í brotum“, það getur ekki gert greinarmun á sjálfu sér og
öðrum og „yglir og glefsar út í loftið/ í draumi um geirvörtu og brjóst,“ eins
og Dagur Sigurðarson orðar það í einu ljóða sinna.33 Á milli 6 og 18 mánaða
aldurs byrjar barnið að bera kennsl á skynheildina sem það sér í spegilmynd
sinni og kemur á ímynduðum tengslum og sjálfsvissu gagnvart sínum eigin
óbrúanlegu innri aðgreiningum. Virkni spegilstigsins er þess vegna frum-
háttur samsemdar á sviði hins ímyndaða. Hin óstöðuga ytri ímynd sem við
samsömum okkur við er í raun til marks um firringu og afmiðjun sjálfs-
verunnar því sjálfið er tilkomið að utan. Hinn í sjálfinu er því ekki eitthvað
sem býr (innst) í manninum sem einhvers konar undirliggjandi grunnur eða
efni. Og að verða sjálf er þar af leiðandi ekki „náttúrulegt“ ferli sem er inn-
byggt í lífveruna, heldur er sjálfið ávallt tilkomið vegna Hins.
Innan sálgreiningarinnar hefur mikið verið fjallað um kynhvatir og kyn-
líf, rétt eins og kynjamismuninn sjálfan, enda er „ekkert […] mannlegra en að
flækja kynhvötina, þessa blindu frumhvöt sem við eigum sameiginlega með
dýrunum, leiða af henni margbrotnar og margvíslegar langanir og iðkanir,“
eins og Björn Þorsteinsson hefur komist að orði.34 Luce Irigaray er meðal
þeirra sem hefur nýtt sér hugmyndir Lacans til að fjalla um kynjamismun
og kynjapólitík.35 Helsti kosturinn við kenningu Lacans umfram kenningu
32 Sbr. Jacques Lacan, „Spegilstigið“. Óbirt þýðing eftir Björn Þorsteinsson. Þá má
nefna að í Ritinu 2/2003 birtist grein Shoshana Felman um endurskoðun Lacans
á Ödipusarduldinni, „Handan Ödipusar. Dæmisaga sálgreiningarinnar“, bls. 133–
165, í þýðingu Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur. Alda Björk hefur líka skrifað um
kenningar Lacans, t.d. í greininni „„Á frátekna staðnum fyrir mig“. Ást og dauði í
Tímaþjófnum í ljósi sálgreiningar“, Ritið 2/2006 bls. 143–162. Um Lacan hefur einn-
ig skrifað Sveinn Yngvi Egilsson, „Myndmál sálma. Tilraun til túlkunar með hlið-
sjón af kenningum Jacques Lacan“, Kynlegir kvistir tíndir til heiðurs Dagnýju Krist-
jánsdóttur fimmtugri, ritstjóri Soffía Auður Birgisdóttir, Reykjavík: Uglur og ormar,
1999, bls. 143–171. Hugmyndir Lacans um spegilstigið sækja margt til ritgerðar
Freuds „Um narsisma“ og kenninga sálfræðingsins Henri Wallon.
33 Dagur Sigurðarson, „Geirvörtur (Til Möggu)“, Rógmálmur og grásilfur, Reykjavík:
Heimskringla, 1971, bls. 50.
34 Björn Þorsteinsson, Eitthvað annað. Greinar um gagnrýna heimspeki, Reykjavík:
Heimspekistofnun og Háskólaútgáfan 2006, bls. 127–145, hér bls. 142–143.
35 Sjá Luce Irigaray, „Þegar varir okkar tala saman“, þýðandi Steinunn Hreinsdóttir,
Hugur. Tímarit um heimspeki 28/2016–2017, bls. 83–92 og Steinunn Hreinsdóttur,
„Líkamleg gagnrýnin hugsun í heimspeki Luce Irigaray“, Hugur. Tímarit um heim-
speki 30/2019, bls. 165–182.