Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Blaðsíða 29
TORFI H. TulINIuS
32
„Genginn út úr sjávarhömrum“
Hvergi slær það lesandann af jafn miklum krafti hve feigðin er óumflýjan-
leg og í frægri frásögn af jötninum Járngrími. Í draumi Flosa skömmu eftir
Njálsbrennu, gengur Járngrímur út úr lómagnúp og kallar á menn Flosa
(346–348). Nöfnin eru sögð í sömu röð og Kári vegur þá síðar í sögunni.23
Þegar litið er til kenningarinnar um dauðahvötina, er þessi frásögn einkar
áhugaverð og liggja til þess minnst tvær ástæður. Fyrsta er sú að jötunninn
birtist Flosa í martröð, sumsé kvalafullri upplifun en ekki í draumi þar sem
ósk Flosa uppfyllist, eins og í fyrri kenningu Freuds um vellíðunarlögmálið.
Hann er að upplifa áfall, reyndar er það áfall sem hann verður fyrir síðar í
sögunni, þegar Kári hefnir Njálsbrennu með því að drepa marga af fylgis-
mönnum hans.24 Hin ástæðan er sú að hér er hugmyndin um fyrirfram boð-
aðan dauða ekki sett fram sem forspá einhvers, heldur sem eitthvað yfirnátt-
úrulegt og óhugnanlegt: dularfullur og risavaxinn maður með ægilegt nafn
sem gengur út úr fjalli.
Það er engin tilviljun að Freud gaf út fræga ritgerð sína um „hið óhugnan-
lega“ eða das Unheimliche aðeins ári fyrr en „Handan vellíðunarlögmálsins“.25
Eins og Freud sagði sjálfur, þá eru dauðahvatirnar í eðli sínu óhugnanlegar.26
Sú hugmynd að innra með okkur séu að verki öfl sem vinni að endalokum
okkar stríðir ekki aðeins gegn almennum viðhorfum, hún er einnig mjög trufl-
andi. Þrátt fyrir það er dauðinn órofa hluti lífsins af því allar lífverur eldast
og deyja. En kenning Freuds nær lengra en þessi dapurlega staðreynd. Það
sem vekur óhug okkar í kenningunni – og raunar á það líka við um sjálfa dul-
vitundina – er að í okkur býr afl sem við ráðum ekki yfir og kunnum ekki við.
Ekki er nóg með að við séum ekki herrar í eigin húsi, eins og Freud orðar það
á eftirminnilegan hátt, heldur hefur innri óvinur tekið sér þar bólfestu.27
23 lars lönnroth, Njáls Saga, bls. 32. Töluvert hefur verið skrifað um draum Flosa.
Hér nægir að vísa til þess sem Einar Ólafur Sveinsson segir í formála sínum að
sögunni um tengsl draumsins við frásögn úr Viðræðum Gregoríusar mikla (Einar
Ólafur Sveinsson, Á Njálsbúð. Bók um mikið listaverk, Reykjavík: Hið íslenska
bókmenntafélag, 1943, bls. 10–11; 171).
24 Hér mætti hreyfa þeirri mótbáru að áfallið sem Flosi mun verða fyrir hefur ekki átt
sér stað og því eiga kenningar Freuds ekki við hann. Henni er svarað með því að
minna á að Flosi er bókmenntapersóna, og sem slík ekki með dulvitund. Dulvitund
þess sem ritaði söguna og viðtakenda hennar er viðfangsefni þessarar greinar.
25 Sigmund Freud, Listir og listamenn, Sigurjón Björnsson þýddi, ritaði inngang og
skýringar, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2004, bls. 191–238; Peter
Brooks, Reading for the Plot, bls. 99.
26 Sigmund Freud, „Handan vellíðunarlögmálsins“, bls. 101–104.
27 Sigmund Freud, A Difficulty in the Path of Psycho-Analysis, James Strachey þýddi,