Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Blaðsíða 108
TIL TUNGLSINS OG TIL BAKA
111
að veita „manneskjunni sinni“ athygli, skilja hvað hún vill og þarf, uppfylla
þær óskir og fullnægja þeim þörfum. Hér er með öðrum orðum boðið upp
á ást líka ást móður (eða staðgengils hennar) á barni sínu, allra fyrstu ástinni
sem við upplifum. ólíkt móður eða öðrum mennskum verum sem börn stóla
á, getur stýrikerfið þó alltaf verið til staðar. Eigandinn þarf aldrei að vera án
athyglinnar og umhyggjunnar sem OS1 veitir vegna þeirra takmarkana sem
líkaminn setur manneskjum.
Á því leikur enginn vafi að fólk hefur haft tilhneigingu til að lofa hvert
öðru endalausri ást í gegnum tíðina, hvort sem má rekja það til sjálfsblekk-
ingar, hugsunarleysis eða yfirdrifinna stílbragða ástartungumálsins.34 Hvað
sem því líður, gerir ritgerðin „Um narsisisma“ lesendur sérlega meðvitaða
um eigin takmarkanir, takmarkanir sem eru óumflýjanlegar þrátt fyrir góðar
fyrirætlanir. Þar lýsir Freud því hvernig sá sem er kvalinn „af líkamlegum
sársauka og vanlíðan […] hættir að elska á meðan hann er veikur“ – við-
fangshvötin beinist þá tímabundið inn á við og umbreytist í sjálfshvöt.35
Svefnþörfin setur hugverunni sömuleiðis skorður og veldur því að hvatir
hennar beinast einungis að henni sjálfri; hún gefur ekkert af sér og fullnægir
engu nema eigin löngun eftir hvíld.36
Af þessu er ljóst að það er lykilatriði að stýrikerfið í Henni sé ekki lífvera,
þrátt fyrir að það sé greinilega líka „meira en“ söluvara. OS1 hefur vitund en
ekki líkamlegar eða sálrænar þarfir. Stýrikerfi með gervigreind stendur utan
hvatahagkerfisins sem setur svip sinn á samskipti fólks, þar sem viðfangshvöt
beggja aðila á að tryggja jafnvægi í sálarlífinu og koma í veg fyrir að sjálf
einstaklings líði fyrir það að beina hvötinni að öðrum án þess að fá nokkuð í
staðinn. Eigandi OS1 þarf þar af leiðandi aldrei að gefa af sér líkt og almennt
gildir í samböndum milli fólks. Tilvistarforsenda OS1 er manneskja þess.
Það er rétt að ítreka að stýrikerfinu í Henni er ekki ætlað að koma í stað
34 Titill greinarinnar sækir í þetta ástartungumál, en meðal þess sem fólk segir til að
lýsa ást sem er svo mikil að orð virðast varla ná utan um hana er að það „elski þig
til tunglsins og til baka“ og „út í geim og aftur heim.“ Guðsonur minn bætir svo
gjarnan við „og í kringum húsið okkar“ til áhersluauka. Stephen Kern ræðir virkni
ástarhugtaksins í The Culture of Love, og færir þar margvísleg rök fyrir því að tjáning
ástar hafi tekið umtalsverðum breytingum frá nítjándu öld og fram á þá tuttugustu,
og nefnir þar sérstaklega Freud sem áhrifavald. Niðurstaða Kerns felst meðal ann-
ars í því að ástarhugtakið og samfélagsleg þýðing ástar sé menningarlega mótuð.
Stephen Kern, The Culture of Love, Cambridge og London: Harvard University
Press, 1996.
35 Sigmund Freud, „Um narsisma“, bls. 33.
36 Sama heimild, bls. 34.